fimmtudagur, október 30, 2008

 

Vandi á höndum

Nú er mér vandi á höndum. Síðustu tvo laugardaga hef ég mætt á Austurvöll klukkan þrjú til að mótmæla og krefjast þess (aðallega) að Davíð Oddsson haldi sér saman og víki úr Seðlabankanum. Svo sé ég í blöðunum að á laugardaginn kemur verði gengið frá Hlemmi niður á Austurvöll og nú eigi að krefjast nýrra kosninga, sem hugsanlega getur verið ágætt. Minn vandi er hins vegar sá að ég treysti mér ekki til að taka undir kröfu um að þing verði rofið og efnt til kosninga því ég treysti engum þeirra pólitíkusa sem nú sitja við stjórnvölinn til að stjórna landinu sómasamlega, enda þótt ég vilji að þeir víki sæti, og því miður treysti ég heldur ekki stjórnarandstöðunni. Geir Haarde sem er undir hælnum á Davíð Oddssyni hefur helst unnið sér það til frægðar að undanförnu að nýtt sagnorð kennt við hann hefur unnið sér sess í íslensku máli, sögnin að hardera. Ingibjörg Sólrún og Össur stíga til skiptis tangó með tilþrifum við téðan Geir Haarde þótt þau taki einstaka sinnum smádýfu og trukk, eiginlega rétt bara til að halda dansherranum vakandi. Um Steingrím J. Sigfússon þarf ekki að fara mörgum orðum, hann hefði sómt sér vel um aldamótin 1900, en ég sé ekki að hann eigi neinn vettvang í samtímanum. Um aðra flokka er óþarfi að fjölyrða. Og ef nýtt framboð er væntanlegt með Jón Baldvin í fararbroddi held ég að ég treysti mér ekki til að ljá því atkvæði mitt. Mér eru nefnilega minnistæð orð hans um hvað þeir hefðu "smollið gersamlega saman" þegar hann og téður Davíð komu í land eftir að Viðeyjarstjórnin varð til. Reyndar hef ég tvívegis verið spurð hvort ég trúi ekki að menn geti séð að sér og vitkast og svarið er; jú að vísu trúi ég því, en ekki í þessu tilfelli.
Reyndar myndi ég treysta tveimur mönnum til að fara með stjórn landsins í sameiningu, en aðeins ef engir aðrir fengju að skipta sér af málunum. Þorvaldi Gylfasyni til að stjórna efnahagsmálum og Jóni Ormi Halldórssyni til að fara með utanríkismál. Það er þetta sígilda með menntaða einvalda, í þessu tilfelli reyndar tvo.

fimmtudagur, október 23, 2008

 

Hreysti

Héðan í frá er ég hætt allri neikvæðni í skrifum mínum, að minnsta kosti í bili. Öll blöð og fréttatímar segja ekki annað en kreppufréttir sem draga úr manni allan kraft, eins og maður þurfi ekki á öllum sínum krafti og jákvæðni að halda núna. Svo ég hef ákveðið að reyna að vera jákvæð og upplífgandi og þá er komið að fyrirsögninni á þessu bloggi.
Í gær, miðvikudag, tókum við hjónin okkur pásu upp úr hádeginu og fórum í sund eins og við reynum að gera nokkrum sinnum í viku. Þegar út í laug var komið blasti við okkur skilti með upplýsingum að laugin væri köld, aðeins 26°. Og þegar við ætluðum að láta klippa af kortinu okkar brosti unga stúlkan í afgreiðslunni og sagði að það væri ókeypis í laugina vegna þess hvað hún væri köld. Eftir smástopp í pottinum ákvað ég að drífa mig ofan í og synda svolítið. Það verður að viðurkennast að laugin var "svolítið svöl" eins og ágætur fornbókasali og fastagestur sagði við mig þegar ég bjó mig undir sundsprettinn, en mikið ofsalega var gott að synda í ekki heitari laug en þetta. Ég vildi hreinlega að hún væri svona alltaf. Reyndar synti ég ekki í hálftíma eins og ég er vön, ekki út af kuldanum heldur hafði ég ekki tíma í það, og það var frábært að skella sér svo í heitari heita pottinn á eftir.
Sem sagt, sú gamla á Tjarnarbóli er bara hraust kerling.
Hafið það gott og farið varlega í vonda veðrinu.

Reyndar er ég svolítið spæld út af því að vita ekki hvort ég skulda allt í einu fjórar milljónir, sex milljónir eða sex plús fjórar milljónir, í viðbót við þessar venjulegu skuldir mína.
Hver getur frætt mig um það?

sunnudagur, október 19, 2008

 

Kjaftstopp uppi á skeri

Ég hef ekkert skrifað hér lengi enda algerlega kjaftstopp yfir ástandinu og hef því ekkert haft að segja um stöðuna. Mætti reyndar á Austurvöll í gær að krefjast þess að Dabbi kóngur hverfi úr Seðlabankanum, en auðvitað er hann ekki sá eini sem ætti að sjá sóma sinn í því að segja af sér. Mér sýnist að það þurfi að skipta algerlega um stjórnina í brúnni, svo ég bregði nú fyrir mig sjómannamálinu vinsæla. Spurningin er bara hverjum maður myndi treysta til að taka stjórnina og ég verð að segja að ég treysti engum af þeim fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem á Alþingi sitja. Flest af því er auðvitað samviskusamt sómafólk en því miður sé ég ekki hvernig hægt væri að mynda nýja stjórn með aðild stjórnarandstöðunnar. Svo haldið sé áfram með sjómannamálið er þjóðarskútan greinlega lent uppi á skeri og spurning hver geti dregið hana á flot aftur.
En fyrir utan það er Anna með frábæra lausn á fjárhagsvanda þjóðarinnar á síðunni sinni í dag.

fimmtudagur, október 09, 2008

 

Tillögur til lausnar efnahagsvandans

Ég legg eftirfarandi til:
1. Að Davíð Oddssyni verði bannað að tala, hann læstur inni á Kleppi og lyklinum hent.
2. Að allir fjármunir sem peningapiltarnir með ofurlaunin geyma í erlendum bönkum verði umsvifalaust fluttir heim.
3. Að erlendar eignir téðra peningapilta verði seldar og andvirðið flutt heim.

Ég var reyndar búin að segja ýmislegt ljótara um Davíð Oddsson en mundi þá að blogg er fjölmiðill og eins gott að gæta tungu sinnar.
Og hér má koma amen eftir efninu.

mánudagur, október 06, 2008

 

Andlát kapítalismans

Fyrir rétt tæpum tveimur áratugum dó kommúnisminn með falli Berlínarmúrsins. Nú er kapítalisminn og frjálshyggjan í andarslitrunum eftir fall hagkerfisins og ég er öskureið yfir að þurfa að borga útförina. Spurning hvaða ismi taki við, populismi kannski. Það verður varla verra. Þjóðnýtum bara allt heila klabbið og stöðvum græðgina! Annað mál er að mér finnst að peningastrákarnir og pólitíkusarnir ættu að skeina sig sjálfir þegar þeir hafa gert svona illilega í buxurnar!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?