þriðjudagur, febrúar 28, 2006

 

Bolludagur

Bolludagurinn í gær var bara alveg ágætur. Held samt að ég geti ekki hugsað mér að borða rjómabollur fyrr en eftir ár að minnsta kosti. Frumburðurinn kom í kaffi og fékk fáeinar en annars sátum við hjónin ein að kræsingunum og satt að segja hafði ég fengið meira en nóg í gærkvöldi. Saltkjöt og baunir verða ekki á boðstólum hér fyrr en annað kvöld, ég er á kóræfingu frá klukkan hálfsex til átta og hvern langar að borða saltkjöt og baunir þegar langt er liðið á kvöld? Við höfum þess vegna dagaskipti við Drottin, eins og móðir mín sagði ef hún af einhverjum ástæðum var með sunnudagamat á virkum degi eða hversdagsmat á sunnudegi. Það er kannski ekki við hæfi að byrja páskaföstuna á að troða sig út en ég held samt að okkur fyrirgefist það alveg.

mánudagur, febrúar 27, 2006

 

Ársafmæli

Ég ætlaði svo sannarlega að fylgjst með því hvenær ég ætti ársafmæli í bloggi, en haldið þið að ég hafi ekki bara steingleymt því. Svo kíkti ég á það áðan og fyrsta bloggið var 6. febrúar 2005 svo það er komið langt fram yfir afmælið. En það sniðuga er að ég hef byrjað á þessu sunnudaginn fyrir bolludag í fyrra og nú er einmitt bolludagur svo þetta passar nokkuð vel. En mikið rosalega hafa páskarnir verið snemma í fyrra.
Lifið heil.

laugardagur, febrúar 25, 2006

 

Rauði dregillinn

Við hjónin festum kaup á rauðum dregli í vikunni sem leið. Eftir reynsluna sem komin er á gripinn sé ég að rauður dregill er bráðnauðsynlegur á öllum heimilum. Nú telst ég á hverjum degi til „fólksins á rauða dreglinum“ sem er gott fyrir egóið. Ég bíð bara eftir að fjölmiðlarnir reki hljóðnema upp í andlitið á mér og spyrji hver hafi hannað dressið.
Lifið heil.

 

Ædol

Það er magnað að loksins þegar litlu ædolin fengu að syngja á ástkæra ylhýra málinu kunnu þau ekki ljóðin. Enda sögðu þau öll að það væri miklu erfiðara að syngja á íslensku en ensku. En íslensku þjóðinni til hróss enduðu þau þrjú sem klúðruðu textunum í neðstu sætunum. Og þegar strákanginn söng Þrek og tár í lok þáttarins var beinlínis átakanlegt hvernig hann fór með þetta fallega ljóð. Stundum er ekki nóg að hafa bara útlit og rödd, það þarf líka að vera eitthvað á milli eyrnanna á fólki.
Það var ekki fleira í bili. Takk

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

 

Aldrei þessu vant

Aldrei þessu vant get ég ekki ákveðið mig - á ég að fara í óperuna að sjá Öskubusku 3. mars? Kórinn er með hópferð og það verður partý hjá Möggu á undan. Mig dauðlangar en samt get ég ekki ákveðið mig. Kannski af því að við hjónakornin erum að fara á skrall daginn eftir. Við sjáum til.

föstudagur, febrúar 17, 2006

 

Nýjustu fréttir

Mogginn alltaf fljótur með nýjustu fréttirnar: Margar konur þrælar útlitsdýrkunar.
Aldrei hefði mér dottið þetta í hug - ég er nú svo aldeilis yfir mig hissa!

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

 

Fjólubláir draumar

Ég ætla ekki að eyða plássi í að lýsa því hvernig mér leið á mánudaginn, líðanin var skárri í gær og nú er allt á góðri leið og ég byrja í sjúkraþjálfun á föstudagsmorguninn, meira að segja kl. 08.30 þótt ég vilji helst kúra mig undir sæng heldur lengur. Annan eins andskotans hálsríg hef ég aldrei vitað, vöðvabólga er sko ekkert grín og fjandi skítt að verða svona nýkomin úr frábæru fríi.
En, sem sagt, nú er líðanin allt önnur og í dag átti ég pantaðan tíma í klippingu og lit hjá Færeyingnum mínum, honum Jogvan á Unique, og hafi ég einhvern tíma verið töff útlits þá er ég það núna. Eftir að hafa litað mig hvíslaði hann að mér að hann hefði sett örlítinn fjólubláan lit út í þann rauðbrúna, svona til að fá skemmtilegan tón í hárið. Og ég er auðvitað stórglæsileg með þennan fjólubláa tón í hárinu og ljósa blesu í hægri vanga. Er þetta kannski ekki við hæfi svona aldraðra kvenna? Jú, ég held það nú, Ella vinkona mín er nýorðin löggilt gamalmenni og hún er yfirleitt svo rosalega töff og flott að það hálfa væri nóg. Í kvöld fer ég á kertaljósafundi í BPW-klúbbnum, það er alltaf rosalega hátíðlegt og gaman og svo verður Amal Tamimi gestur okkar og ég hlakka til að heyra hvað hún hefur að segja. Ég varð stórhrifin af ræðunni hennar á kvennafrídaginn (verkfallsdaginn) í haust. Ef einhverjum finnst orðið kertaljósafundur minna á frú Hyacinth Bucket úr sjónvarpsþáttunum frábæru er það helber misskilningur - ekki svo að skilja að ég hefði ekki þegið að vera boðin í candlelight dinner til hennar.
En nú er víst mál að fara að gera eitthvað af viti, hrúga af hreinum þvotti bíður þess að vera straujaður og rykið á stofugólfinu (og ég tala nú ekki um á húsgögnunum) er eiginlega að verða yfirþyrmandi. Og svo eru það auðvitað hin verkefnin sem ég fæ peninga fyrir að ljúka.

laugardagur, febrúar 11, 2006

 

Aftur á Fróni

Komum heim á miðvikudagskvöldið, hress og kát eftir frábæra viku á Kanarí. Hressleikinn fór nú samt af mér í gær þegar ég fylltist af kvefi og ónotum, en eftir þokkalegan nætursvefn held ég að þetta sé allt á réttri leið núna.
Á meðan við vorum úti fylgdist ég lítið með heimsmálunum, ég horfði aldrei á Sky eða CNN og leið bara ágætlega með það. En svo hellast helvítis fréttirnar auðvitað yfir mann þegar heim er komið - kannski þær séu ástæðan fyrir vanlíðaninni. Ég hef svo sem ekki mikið um heimsástandið að segja, en fannst kannski ritstjóra Jyllandspóstsins (dönsku útgáfunnar af DV) ástandið í heiminum vera orðið svo rólegt að það þyrfti að hrista upp í fólki? Eða var tilgangurinn að kynda undir útlendingahatri og magna upp hræðslu? Allavega hefur það nákvæmlega ekki rassgat að segja fyrir prentfrelsi á Vesturlöndum að birta mynd af Múhameð með sprengju í vefjarhettinum. Mér fannst þetta minna ískyggilega á skopmyndir af gyðingum sem ég hef séð og voru birtar í þýskum blöðum áður en heimsstyrjöldin síðari braust út og á meðan hún stóð. Hvernig væri að virða frekar trúarbrögð annarra og forðast að misbjóða trúarvitund fólks að ástæðulausu? Ég er svo sem ekki baun hrifin af ofsatrú hvort heldur sem um er að ræða kristni eða önnur trúarbrögð, en mér finnst þetta stagl um prentfrelsið eins og hvert annað yfirklór. Voru Spaugstofumenn ekki einhvern tíma teknir á teppið hjá biskupi fyrir guðlast? Ég man ekki betur.
Og haldið þið að það sé tilviljun að núna kemur Bush og segir frá hugsanlegri hryðjuverkaárás á Los Angeles? Ég hef ekki séð eða heyrt neitt frekar um hvernig komið var í veg fyrir hana og á ekki von á öðru en að rassasleikjurnar hér á Íslandi gleypi þetta athugasemdalaust. Af hverju var umheiminum ekki skýrt frá þessu strax og búið var að afstýra ódæðisverkinu? Ég bara spyr.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?