föstudagur, mars 31, 2006

 

Og það varð stóll!

Loksins er kominn hægindastóll fyrir frúna meðal húsgagnanna á heimilinu. Nú trónir þessi gæðagripur yfirlætislega í stofunni innan um slitin og lúin starfsystkini sín. Þegar hann var kominn á sinn stað varð ég allt í einu svolítið efins, fannst að hann væri allt of fyrirferðarmikill, en svona stæðileg kona eins og ég getur auðvitað ekki setið á einhverju hænsnapriki. Ég hlakka til að kúra í honum á eftir þegar ég horfi á The Antic Road Show. Annars á ég eftir að finna honum endanlegan samastað - verður það við sjónvarpið eða þar sem ég get haft leslampann við hann? Helst vil ég bara rúlla honum á milli, en þá hefði ég auðvitað átt að fá mér hjólastól - þ.e. stól með hjólum undir.
Það var ekki fleira að sinni - eigið góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr!

föstudagur, mars 24, 2006

 

Huggun harmi gegn

Ætli sumum finnist það huggun harmi gegn að nú vilja Rússar selja okkur hergögn fyrst bandaríski herinn er að fara? Og Frakkar vilja selja okkur herþotur. Eitthvað heyrðist mér samt ráðamenn óánægðir með að þurfa að borga fyrir hlutina. Hvert skyldi Geir snúa sér næst?

fimmtudagur, mars 23, 2006

 

Til að forðast misskilning

Það var auðvitað uppskriftin að matnum en ekki eiginmaðurinn sem ég fann hjá Nönnu. Ég man alveg hvar ég fann manninn minn - eða hann mig.

 

Ferlega fúl

Ég er búin að vera hundfúl í allan dag - vaknaði eiginlega svona í morgun og það er sko ekki gaman get ég sagt ykkur. Kannski er það bara kuldinn sem gerir þetta en ég hélt að ég væri löngu hætt að láta veðrið fara í taugarnar á mér - auk þess sem ég þurfti lítið að fara út í dag og það litla sem ég fór var ég í bíl. En þetta rjátlast vonandi af mér, ég hreinlega nenni ekki að vera svona lengi. Smáljósglæta samt, eiginmaðurinn keypti lambaleggi þegar við vorum úti í Hagkaupum og lofaði að elda handa mér rétt á morgun sem ég hef verið að rella í honum að prófa og var í sannleika sagt hreinlega búin að gleyma. Mig minnir að ég hafi fundið hann hjá Nönnu matargúrú. Það er alltaf einhver glæta í myrkrinu, ég hlakka til að borða annað kvöld.

miðvikudagur, mars 22, 2006

 

Af hverju ekki?

Hvers vegna eru fermingarbörnum ekki gefnir hægindastólar? Ef það væri gert gæti ég kannski fengið hægindastól á fermingartilboði. Ég man að einu sinni keypti ég tölvu á fermingartilboði og vann á hana í mörg, mörg ár.

föstudagur, mars 17, 2006

 

Næst á dagskrá

Í fyrramálið leggjum við hjónakornin af stað til Akureyrar þar sem við munum dvela í ro og mag yfir helgina - áætlað að aka til baka á mánudag.
Ekki fleira í bili.

 

Herinn fer!

Loksins, loksins. Annað hef ég ekki að segja um þetta mál.

laugardagur, mars 11, 2006

 

Geimverur

Ég heyrði dásamlega setningu í einhverjum þætti í sjónvarpinu um daginn.
"Ætlarðu að segja mér að eiginkona besta vinar forsetans sé geimvera?"
Ég hló svo mikið að ég heyrði ekki svarið.

föstudagur, mars 10, 2006

 

Helvítis, bölvað vesen

Ég hef verið að spá í að fá mér góðan hægindastól - vil samt ekki kalla það sjónvarpsstól því ég er á móti því að láta sjónvarpið ráða hvernig húsgögn maður fær sér og hvernig þeim er raðað upp í stofunni. Einhvern tíma í vikunni sem leið sá ég svo auglýstan snotran stól á tilboði, þ.e. með 50% afslætti, í ákveðinni verslun hér í borginni. Ég komst svo til að skoða hann í fyrradag og fannst bara býsna góður. Eiginlega skil ég ekki af hverju ég keypti hann ekki strax því þegar við hjónin komum í búðina í morgun til að festa kaup á gripnum gilti tilboðið ekki lengur og hann var orðinn tvisvar sinnum dýrari og á verði sem ég tími fjandakornið ekki að splæsa undir rassinn á mér. Ég er svo grútspæld út af þessu að ég gæti orgað. Djöfulsins ónáttúra að auglýsa svona og láta svo tilboðið ekki gilda nema í nokkra daga.

sunnudagur, mars 05, 2006

 

Í Fannahlíð er gaman

Gleðskapurinn í Fannahlíð í gærkvöldi var alveg frábær. Það var hreint ótrúlega gaman að hitta þessa gömlu sveitunga - brottflutta og þá sem enn búa í Skilmannahreppi. Ég hélt að ég myndi kannski ekki þekkja nema fáeinar hræður en raunin varð önnur og þarna hitti ég fólk sem ég hef ekki séð síðan ég var um fermingu og frænku sem ég sá síðast þegar hún var fjögurra ára en er núna fimmtug og hefur nýlokið doktorsprófi í stjórnsýslufræðum. Á boðstólum var kínverskt hlaðborð og kaffi og konfekt á eftir. Ég vann fáeinar trjáplöntur í spurningakeppni (veit reyndar ekki hversu margar) og lét vita að það ætti að planta þeim í skógræktina - ég fer ekki að splæsa þeim í lóðina hérna. Og svo var auðvitað dansur aftaní, harmóníkuleikur og söngur og við hjónin dönsuðum Kostervals af mikilli list. En nú er spurning hvað verður um Fannahlíð og hvort Rauðholtskynið þarf að finna sér nýjan samastað fyrir árlega ættarmótið. Vonandi ekki. Mér finnst alveg að þessi moldríki hreppur geti bara afhent Skógræktarfélaginu húsið til eignar. En það yrði auðvitað að gerast áður en sameiningin verður.

laugardagur, mars 04, 2006

 

Til varnar raunveruleikasjónvarpi

Ég var að fletta Blaðinu áðan, sem ég geri reyndar sjaldan, og rak þá augun í pistil þar sem Kolbrún Bergþórsdóttir er að fjargviðrast út í raunveruleikasjónvarp. Hún hafði sem sagt verið að horfa á þátt á RUV þar sem ungir fatahönnuðir voru að keppa og stórhneykslast á því að sjónvarp allra landsmanna sýni þvílíka lágkúru. Kolbrún segir þetta í fyrsta skipti sem RUV sýni raunveruleikaþátt og slíkt sé fyrir neðan virðingu ríkissjónvarpsins. En ég bara spyr, er ekki einn vinsælasti dagskrárliðurinn hjá RUV, Gettu betur, einmitt raunveruleikaþáttur? Eru þar ekki ungmenni að keppa í beinni útsendingu í því sem þau eru snjöllust í? Er svona miklu merkilegra að keppa í bókviti en verkviti og sköpun? Eða felst lágkúran ef til vill í því að ekki var um íslenskan þátt að ræða? Svari nú hver sem vill.
Ég sá reyndar líka hluta af þessum umrædda þætti og fannst hreint frábært hvað sumt af þessu unga fólki var dásamlega frumlegt.

föstudagur, mars 03, 2006

 

Ekkert að frétta

Á endanum fór ég ekki í óperuna. Einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að ég ætti ekki að fara og það varð raunin. Ég var að bíða eftir þætti sem er á dagskrá á miðvikudaginn í næstu viku og fékk hann loksins seint í gær. Hef setið við í dag og var að klára þýðinguna og lesa hana yfir, ég sé alltaf einhverjar smávillur sem þarf að leiðrétta áður en ég sendi efnið frá mér. Og svo finna prófarkalesararnir stundum ýmislegt sem mér hefur yfirsést, en sem betur fer er það frekar sjaldan. Ef ég hefði verið búin að ákveða óperuferð með partí á undan hefði það stressað mig upp úr öllu valdi svo nú er bara ágætt að eiga rólegt kvöld heima. Ég læt kannski verða af því að sjá Öskubusku þó að ég fari ekki með kórnum.
En ég var að horfa á NFS áðan og þar var einhver náungi að sýna Svanhildi og Helga Seljan snyrtivörur - nýju litina fyrir vorið og sumarið. Það sem pirraði mig alveg ósegjanlega mikið var að maðurinn talaði og talaði um liti, var að sýna þeim augnskugga, varaliti, púður og svoleiðis en það sem hann var að sýna sást aldrei í mynd, bara náunginn sjálfur að mala. Ég skildi ekki alveg tilganginn með þessu - ef þetta átti að auglýsa vöruna misheppnaðist það algerlega þar sem hún sást aldrei. Greinilega eintómir karlmenn á kamerunum þarna. Og ég varð déskoti ergileg af því samkvæmt masinu var þetta eitthvað rosalega spennandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?