mánudagur, janúar 28, 2008

 

Veiðimennska

Í gær sjá ég í sjónvarpinu fjallað um námskeið sem ég væri alveg til í að skella mér á. Austfirðingar eru farnir að halda skotnámskeið fyrir konur og hyggjast fara með þau um landið, m.a. hingað á höfuðborgarsvæðið. Alveg sé ég mig í anda ösla um fjöll og heiðar (í bleikum felubúningi ) og fella hreindýr eða rölta um Hellisheiðina með haglara og veiða jólarjúpurnar. Ég treysti mér nefnilega alveg til að veiða það sem ég borða - og svo væri gaman að geta fært ættingjum og vinum eins og í eina máltíð. Ég er nú samt hrædd um að ekkert verði af þessu, hef varla efni á að kaupa mér haglara, hvað þá heldur hreindýrariffil og svo kostar veiðikortið sitt. En maður má auðvitað láta sig dreyma. Allavega finnst mér heilbrigðara að veiða sér til matar heldur en að fara til Afríku eða Asíu og skjóta ljón og tígrisdýr til að láta stoppa upp og stæra sig af þegar heim er komið.
Annað var það ekki að sinni.

laugardagur, janúar 26, 2008

 

Nóg boðið...

Mér er gersamlega nóg boðið núna. Ekki má maður bregða sér út fyrir landsteinana í fáeina daga svo ekki verði allt vitlaust heima á Fróni. Við komumst reyndar aðeins á netið þarna úti og sáum meðal annars að Bobby Fisher væri dáinn og einhverjir snillingar vildu að hann yrði jarðsettur í þjóðargrafreitinum á Þingvöllum. Næstu fréttir sem við fengum voru svo um nýja borgarstjórann og brallið í kringum hina hljóðu hallarbyltingu í Ráðhúsinu. Ég verð að segja að mér finnst sá nýi hreint ekki gæfulegur og svo á Villi að taka við af honum eftir árið. Hverju skyldi honum þá takast að klúðra? En þar sem alþjóð var svo eftirminnilega sýnt fram á minnisleysi téðs Villa fyrir þremur mánuðum er, held ég, nokkuð ljóst að hann er búinn að steingleyma því að hafa nokkurn tíma klúðrað nokkru í borgarmálunum. Annars var hann hinn besti drengur í gamla daga, mig uggir hreinlega að elliglöp séu tekin að hrjá hann. Fyrsta embættisverk borgarstjórans var svo að kaupa kofana á Laugaveginum fyrir hálfan milljarð eða svo - var ekki sagt að kaupverðið yrði ekki gefið upp? En það hlýtur þó að koma fram í ársreikningum borgarinnar þegar þeir verða lagðir fram á næsta ári. Og svo er Bingi hættur í stjórnmálum blæðandi á bakinu. Ég verð nú að segja að mér finnst ekkert merkilegt og engum koma við þótt kosningasjóður Framsóknar hafi keypt á hann jakkaföt fyrir kosningabardagann og reyndar ekki á hann einan, fleiri fengu sömu meðferð, en trúlega ekki sá sem kastaði fyrsta steininum. Ef menn vilja að frambjóðendur gangi þokkalega til fara finnst mér þetta bara sjálfsagt mál - á kannski æskilegur frambjóðandi að neita því að taka sæti ofarlega á lista af því að hann á bara gallabuxur og boli og hefur ekki efni á að kaupa sér jakkaföt? Ekki svo að skilja að ég haldi að Bingi hafi ekki verið í þokkalegum efnum.
Mikið lifandis ósköp er ég fegin að búa á Seltjarnarnesi þótt hér hafi íhaldið verið við völd lengur en elstu menn muna. Maður veit þó altént að hverju maður gengur.

Annars var frábært að vera á Tenerife, verst að lenda nokkra daga í fjandans sandstormi frá Sahara - reyndar olli sandurinn okkur engum óþægindum en mistrið sem fylgdi var leiðinlegt. Og það var ekki norðanstrekkingur eins og hér heima, við gátum farið í gönguferðir, setið á útikaffihúsum í hlýrri golunni og spókað okkur léttklædd. Staðsetningin á hótelinu var frábær, maður gekk beint út í iðandi mannlífið á götunni. Íbúðin var rúmgóð og indæl, vel búin húsgögnum, leirtaui og þess háttar, en ég held að í henni hafi verið einhver slæðingur því erfiðari og meira krípí draumfarir hef ég aldrei á ævinni haft - veit reyndar ekki í einu tilfellinu hvort heldur ég var sofandi eða vakandi eða kannski á milli svefns og vöku. En ekki meira um það, hér á Tjarnarbóli er enginn slæðingur og nú þarf ég að fara að koma mér í vinnugírinn.

sunnudagur, janúar 13, 2008

 

Sunnudagsblús og sófasett

Það er ekki gott að hafa of mikið að gera en leiðinlegt að hafa ekkert fyrir stafni eins og raunin hefur verið í dag. Við byrjuðum daginn að sjálfsögðu í Sundlaug Seltjarnarness (og sturturnar eru ekkert að lagast, ýmist of heitar eða of kaldar) og svo lagðist bóndinn í sjónvarpsáhorf og ég fletti blöðunum. En svo tókst okkur að rífa okkur upp og brunuðum í Hafnarfjörð og sáum sýninguna sem er í Hafnarborg. Hún var afar fjölbreytt og skemmtileg og ég mæli alveg hiklaust með að fólk drífi sig í Fjörðinn og skoði menninguna. Kaffistofan í Hafnarborg var lokuð og hafnfirski vinurinn ekki heima svo kaffilaus yfirgáfum við plássið en síðan datt okkur í hug að kíkja í Smáralindina og fá okkur kaffi þar. Eftir smárölt um staðinn var komið að kaffihúsinu en þá var svo löng biðröð þar að við nenntum ekki að bíða og fórum heim án kaffis. Nú er spurningin bara hvort ég nenni að laga kaffi eða láti það einfaldlega vera - er ekki bara ágætt að sleppa öllu kaffiþambi?

Ég var víst aldrei búin að nefna að við hjónin smelltum okkur á nýtt sófasett (3+2) á mánudaginn var - fengum súpergóðan díl í Pier. Nú er það gamla komið í Sorpu en það nýja skreytir stofuna svo ljómandi fallega að hún lítur næstum út eins og stássstofa hjá fínu fólki. Við þurfum líka reyndar að kaupa okkur borð við það, gömlu borðin eru orðin svo óttalega illa farin, en það bíður þar til við höfum sleikt sólina á Tenerife og erum komin aftur heim í kuldann.

sunnudagur, janúar 06, 2008

 

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár, kæru vinir og ættingjar til sjávar og sveita!
Vonandi ber nýja árið margt gott í skauti sér, en eftir svona frábært ár eins og 2007 verður erfitt að toppa það. Auðvitað er margt í bígerð á nýju ári sem væntanlega verður skemmtilegt og jafnvel ógleymanlegt, en það er aldrei að vita hvað framtíðin færir manni og best að vita sem minnst - eða þannig.
Jólin og áramótin á þessu heimili liðu í friði og ró með fjölskyldunni eins og vera ber og maður er svona rétt að komast í hversdagsgírinn á ný. Eiginmaðurinn þvertók fyrir að við tækjum jólaskrautið og ljósin niður í dag, það skal fá að standa út jólin. Gott mál.
Nú get ég upplýst að þann 14. júní n.k., ef Guð lofar, mun ég standa á sviði Carnegie Hall í New York, ásamt ég veit ekki hve mörgum fleiri, og taka þátt í flutningi á Carmina Burana undir stjórn Garðars Cortes (eldri auðvitað). Æfingar munu hefjast fljótlega og ég hlakka mikið til. Ég vona bara að þær byrji ekki fyrr en við hjónin erum komin til baka frá Tenerife, en það fer að styttast í ferðina þangað. Það verður ansi mikið að gera hjá mér þar til við förum, verst að ég er orðin svo skrambi löt eftir öll þessi rólegheit.
Vafalaust verður eitthvað fleira skemmtilegt á dagskrá hjá mér á komandi ári, svo sem ferðalag um Strandir, en mér finnst þetta alveg nóg í bili. Frá öðrum uppákomum verður skýrt þegar og ef til þess kemur.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?