miðvikudagur, desember 27, 2006

 

Hátíðaskap

Ég hef verið í hátíðaskapi frá því á Þorláksmessu og hef hugsað mér að halda því áfram fram yfir áramót. Jólin eru að baki og þau voru hreint dásamleg, laus við allt stress og hamagang. Samverustund á aðfangadag með öllum barnabörnunum sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu og svo rólegheita jólamáltíð um kvöldið - og þvílík máltíð. Léttsteiktar rjúpnabringur bráðnuðu á tungunni með bragðmikilli villibráðarsósu, rauðkáli og sykurbaunum. Og þótt við værum bara tvö vorum við svo lengi að opna pakkana að yngri sonurinn hringdi áður en við vorum búin - við vorum reyndar með þann síðasta í höndunum. Og jólagjafirnar voru ekki af lakara taginu, ég ætla ekki að telja þær upp, en við höfum allavega nóg að lesa fram eftir vetri og getum hlakkað til sumarsins. Ég verð samt að segja frá pakkanum frá eiginmanninum - ég var margbúin að tala um hvað mig langaði í þokkalega stórt púsluspil og haldið þið að það hafi ekki einmitt komið púsluspil upp úr pakkanum, með mynd af fíl að sjálfsögðu. Fíllinn er reyndar á sundi og myndin er hryllilega erfið. En hvað um það, mér fannst svolítið skrýtið að það var búið að taka sellófanið utan af kassanum, svo ég lyfti lokinu og þá var annar, pínulítill pakki þar ofan í. Ég sem elska svona pínulitla pakka! Og upp úr honum kom þessi líka fallegi gullhringur, væri ekki betri þótt ég hefði valið hann sjálf! Púslið er hins vegar svo erfitt að ég verð sennilega fram á vorið að koma myndinni saman!
Hafið það nú sem allra best og friður sé með ykkur!

laugardagur, desember 23, 2006

 

Þorláksmessukvöld

Það er komið Þorláksmessukvöld og allt er tilbúið fyrir jólin. Íbúðin komin í jólaskartið og við, hjónakornin, búin að fá hangiketsflís með tilheyrandi meðlæti. Jólatréð í stofu stendur, reyndar glampar ekki á neina stjörnu en Borgarnesengillinn er á sínum stað. Ekkert eftir annað en að pakka fáeinum gjöfum til barnabarnanna og koma þeim til þeirra. Væntanlega koma Ísold og Númi með okkur til Huldu á morgun, mér heyrðist í dag að þau vildu það öll. Og við erum ekki lengur bara tvö á heimilinu, jólakötturinn mætti á fimmtudagskvöldið. Ekkert skrímsli sem ætlar að éta okkur ef við fáum ekki nýja flík heldur Kisa litla, sæta, sem kúrir núna í sófanum og stendur öðru hvoru upp til að nudda sér utan í okkur. Hún verður sem sagt hérna hjá okkur fram yfir áramót á meðan eldri sonurinn er með sinni heittelskuðu austur á Egilsstöðum - það er auðvitað ekki slæmur staður til að eyða jólum og áramótum á.
Annað er það ekki í bili. Gleðileg jól, þið sem þetta lesið!

miðvikudagur, desember 20, 2006

 

Og jólin nálgast....

Nú fara jólin að skella á - hér hefur ekki verið tekið til eða þrifið í mánuð eða svo en í dag tókum við okkur til og héldum hreingerningadaginn mikla. Ég náði samt ekki að strjúka yfir gólfin, geri það bara á morgun. Það er allavega þokkalegt um að litast núna og ilmandi hreingerningalykt í íbúðinni.
Og haldið þið að tónleikarnir okkar hafi ekki fengið þessa fínu krítik í Mogganum. Flest kom prýðilega út, það var helst Ave Maria eftir Caccini sem var heldur knúsað í hljóðfæraútsetningunni (ekkert fundið að söngnum), en margt annað var frábært, eins og t.d. Slá þú hjartans hörpustrengi eftir Bach, sem var afar heillandi. Almennt var söngurinn sérlega vandaður, bæði tær og hljómmikill, undir markvissri stjórn Margrétar. Hvað viljið þið hafa það betra?
En þá er það Oslo Gospelkor. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum - ekki með sjálfan sönginn heldur pirraði það mig að þau skyldu öll syngja í hljóðnema. Hljómburðurinn er það góður í Grafarvogskirkju að það er alger óþarfi fyrir svona kór að vera með rafmagnað hljóðkerfi og það hreinlega skemmdi fyrir. Kórinn tók tvö lög a capella í boðinu hjá norska sendiherranum og þar var augljóst að söngvararnir standa fyrir sínu og vel það. Sem sagt, góður kór en frekar misheppnaðir tónleikar. Og ég skildi heldur ekki af hverju stjórnandinn kynnti allt á fremur bjagaðri ensku heldur en að tala bara norsku, sem flestir hefðu líklega skilið alveg eins vel, ef ekki betur.
En ég ætla ekki að jagast meira, jólin fara að skella á og alger óþarfi að vera að pirrast eitthvað. Þessa aðventu hef ég sótt þrenna tónleika (og sungið á tvennum að auki) sem verður að teljast býsna gott, ég er að hugsa um að halda þessum aðventusið áfram. Miklu meira uppbyggjandi en búðarráp. Og svo er ég búin með jólagjafakaupin og ég held að allir verði ánægðir með sitt.
Veit ekki hvort ég blogga meira fyrir jól svo ég bið ykkur bara Guðsblessunar yfir hátíðarnar.
Amen.

fimmtudagur, desember 14, 2006

 

Oslo Gospelkor

Í gærmorgun ákvað ég að drífa mig á tónleikana sem Oslo Gospelkor heldur í Grafarvogskirkju á laugardaginn og fór á netið og keypti einn miða klukkan 18.00. (Ég var ekkert að reyna að draga eiginmanninn eða neinn með mér). En svo í gærkvöldi þegar ég kom heim úr partýinu sem var að loknum tónleikunum okkar biðu mín skilaboð frá góðvini okkar hjónanna þar sem hann var að bjóða mér á þessa sömu tónleika með norska kórnum - og í ofanálag í móttöku hjá norska sendiherranum annað kvöld. En vandamálið er að ég sit uppi með fjandans miðann sem ég var búin að kaupa því hann fæst ekki endurgreiddur. Ef einhver hefur áhuga á einum miða á þessa tónleika er ég opin fyrir tilboðum, miðafjandinn kostaði mig kr. 5.200 en ég er auðvitað tilbúin að láta hann fyrir minna. En auðvitað uppsprengt verð ef uppselt verður! Lysthafendur geta kommentað á síðuna hjá mér eða hringt í síma 867-9626.

 

Seinni tónleikarnir...

...voru frábærir! Við vorum upp á okkar besta og ég held að gestirnir hafi fundið það. Ave Marían okkar leið af vörum okkar tandurhrein og létt. Verst að Moggarýnirinn skyldi mæta á þá fyrri, en reyndar sögðu sumar kórsystur mínar að hann hefði klappað eins og hann ætti lífið að leysa, en aðrar sögðu að hann hefði verið þungur á brún. Ég get ekki látið neitt álit í ljós þar sem ég kom aldrei auga á hann.

þriðjudagur, desember 12, 2006

 

Að fyrri tónleikum loknum

Fyrri tónleikarnir okkar voru í Hallgrímskirkju í kvöld. Það verður að segjast hreinskilnislega að við höfum staðið okkur betur, ég er hrædd um að gagnrýnandi Moggans verði ekki eins hrifinn af okkur núna og í fyrra. Og ég þoli ekki þegar konur segja svo á eftir: "Var þetta ekki bara í lagi? Við megum nú ekki vera of krítískar." Eigum við ekki einmitt að vera krítískar sjálfar? Mér finnst allavega ekki markmið í sjálfu sér að standa uppi á palli og syngja la, la, la, heldur að standa uppi á palli og syngja vel og koma einhverju til skila til tónleikagestanna. Við heyrum svo á morgun hvað Magga segir um frammistöðuna, en sjálfri finnst mér við oft hafa verið betri. Reyndar var efnisskráin nokkuð erfið en það er engin afsökun, við eigum að vera búnar að æfa þetta nóg. En ég er hins vegar viss um að tónleikarnir annað kvöld verða betri, það er yfirleitt þannig svo að ef einhver les þetta sem ætlar sér að koma á seinni tónleikana get ég fullvissað viðkomandi um að það verður peninganna virði.
Segi frá þeim tónleikum næst. Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?