laugardagur, maí 31, 2008

 

Jarðskjálftafréttir

Ég sat við tölvuna eins og venjulega um þetta leyti dags þegar allt tók að hristast í kringum mig. Sjónvarpið á borðinu lék á reiðiskjálfi, tölvan hentist til og hurðin á skápnum við dyrnar opnaðist og lokaðist til skiptis. Þetta var greinilega jarðskjálfti. Eitt augnablik var ég ekki viss um hvað ég ætti að gera, en svo sá ég auðvitað að ég yrði að halda tölvunni og sjónvarpinu kyrru, ekki máttu vinnutækin hrapa niður á gólf og eyðileggjast. En þegar ég fann að líklega myndu téðir hlutir ekki falla á gólfið þótt stuðningi mínum sleppti tók ég að fikra mig í átt að dyrunum og þegar ég loksins opnaði var mesti hamangangurinn að líða hjá. Það var svolítill skelfingarsvipur á eiginmanninum, hann skildi ekki hvað tafði mig svona, af hverju ég væri ekki löngu komin fram. En þar sem lítill hávaði heyrðist úr vinnuherberginu hafði hann sláandi litlar áhyggjur af því að ég lægi á gólfinu undir öllu draslinu. En að öllu gamni slepptu er þetta held ég snarpasti jarðskjálfti sem ég hef lent í. En það eina sem valt um koll hér á Tjarnarbóli voru tannburstarnir okkar hjónanna sem stóðu á hillu inni á baði og einn lítill fíll í fílaskápnum mínum. Reyndar einn af þeim flottari, úr kristal, en hann brotnaði ekki sem betur fór.

Og þá að öðru: Þjóðhátíðarskjálftanum árið 2000.
17. júní árið 2000 vorum við hjónin stödd í Eistlandi og höfðum ekki hugmynd um að allt Suðurlandsundirlendið léki á reiðiskjálfi. En daginn eftir, 18. júní, flugum við frá Tallin til Kaupmannahafnar. Að venju tókum við leigubíl frá Kastrup að hótelinu okkar í miðborginni og þegar við fórum að tala saman í aftursætinu spurði bílstjórinn, sem reyndist vera frá Króatíu, hvaðan við værum. Við tjáðum honum að við værum Íslendingar að koma frá Eistlandi og ætluðum að stansa aðeins í Kaupmannahöfn áður en við færum heim. Hann hélt nú að við færum ekki heim í bráð, það hefðu orðið svo miklir jarðskjálftar á Íslandi daginn áður að allt væri í rúst, öll hús væru hrunin og alþjóðlegar hjálparsveitir á leið til landsins. Við urðum svolítið hissa en tókum þessu með ákveðnum fyrirvara. Líklega hefði orðið suðurlandsskjálfti eins og búist hafði verið við um tíma, en að öll hús á svæðinu hefðu hrunið og neyðarástand ríkti á gjörvöllu landinu væri frekar ólíklegt. Blessuðum bílstjóranum fannst við taka þessum fréttum af mikilli rósemi og ég sá að hann taldi okkur í algerri afneitun. Þegar á hótelið var komið var tekið vel á móti okkur og okkur tjáð að þrátt fyrir að við hefðum bara pantað venjulegt herbergi myndum við fá lúxusherbergi á sama verði. Á leiðinni upp veltum við fyrir okkur hvort venjulegu herbergin hefðu verið yfirbókuð eða hvort við fengjum lúxusherbergið til að létta okkur áfallið af því að heyra um hamfarirnar. Við reyndum svo strax að hringja í synina, en hvorugur þeirra svaraði, svo það endaði með að ég hringdi í íslenska vinkonu mína í Kaupmannahöfn og fékk réttu fréttirnar hjá henni.

þriðjudagur, maí 20, 2008

 

Anna Frank á Akranesi

Það sækir að mér depurð þegar ég hugsa til Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Ekki svo að skilja að ég hafi nokkurn tíma haft mikið álit á manninum, en hafi svo verið er það nú horfið eins og dögg fyrir sólu. Það er fjandi illmannlegt að reyna að afla fylgis við deyjandi flokk með því að höfða til lægstu hvata fólks, þ.e að það sé að missa spón úr askinum sínum. Sem reyndar er haugalygi þar sem kostnaður við komu flóttafólksins liggur alfarið hjá ríkinu, ekki króna af því fjármagni sem Akraneskaupstaður hefur til ráðstöfunar í velferðarkerfið þar á bæ fer í móttökuna. Spurningin er, hefði sagan verið öðruvísi, og Anna Frank sótt um hæli á Akranesi á sínum tíma, hvort henni hefði verið vísað burt. Reyndar var téður Magnús Þór ekki farinn að láta til sín taka á þeim árum, en engu að síður vísuðu Íslendingar úr landi gyðingum sem reyndu að fá hæli hér og enduðu svo ævina í útrýmingarbúðum nasista, þannig að segja má að við höfum líf saklauss fólks á samviskunni. Við ættum þess vegna að skammast okkar og taka vel á móti því fólki sem hefur ekki í annan stað að venda nema þessa eyju hérna norður í Ballarhafi. Það er ekki eins og því hafi dottið í hug í einhverju bríaríi að skella sér bara til Íslands.
Annars er það besta sem ég hef séð skrifað um þetta mál að finna á:
http://adaltutturnar.blogspot.com og ég hvet alla til að kynna sér það.
Lifið heil.

fimmtudagur, maí 15, 2008

 

Blóm í Hljómskálagarði og gömul synd

Í gær sá ég í Fréttablaðinu stutt viðtal við unga leikkonu sem vill hafa huggulegt í kringum sig og gera eitthvað fallegt fyrir kærastann. Þess vegna tínir hún gjarnan blóm til að setja í vasa. Og í fyrradag eða fyrir nokkrum dögum fann hún þessar fallegu páskaliljur í Hljómskálagarðinum og fór með heim og setti í vasa. Ég hélt reyndar að það væri harðbannað að tína blóm í Hljómskálagarðinum, að þau væru sameign sem ætlað væri að gleðja augu allra borgarbúa. Líklega væri ekki mikið eftir ef hver og einn færi út og næði sér í vönd - jafnvel þótt greipar væru látna sópa víðar en í Hljómskálagarði. En þá er komið að játningunni. Ég hef nefnilega einu sinni stolið blómi úr Hljómskálagarðinum.
Þannig var að sumarið eftir landspróf, þ.e. sumarið 1962, sigldi ein bekkjarsystir mín á 2. farrými með Gullfossi til Englands til að verja hluta sumarsins á enskuskóla þar. Við hinar sem eftir sátum ákváðum að kveðja hana fallega og mæta allar niður á höfn, hver með eitt blóm og gefa henni að skilnaði. Málið var að ég var nýbyrjuð í sumarvinnunni (flugeldagerð) og hafði ekki enn fengið útborgað og hafði því hreinlega ekki efni á viðskiptum við blómabúð. Ég greip því til þess ráðs að koma við í Hljómskálagarðinum og þegar ég var viss um að enginn sæi til sleit ég upp eitt blómið þar, ég man nú ekki lengur hvaða tegund það var, en örugglega ekki páskalilja. Og svo mættum við allar á höfnina, kvöddum Hönnu Maju og vinkuðum henni þar sem hún sigldi á móts við ævintýrin sem við vorum vissar um að biðu hennar. Endrum og eins skýtur þessari minningu upp en samviskubitið þaggar hana aftur niður í flýti. En nú hef ég játað á mig glæpinn og þungu fargi er af mér létt - enda fyrningartíminn löngu liðinn!
Ekki fleira að sinni. Góðar stundir.

sunnudagur, maí 11, 2008

 

Hvítasunnublús

Ég er að vinna verkefni núna sem gerir mig svo þunglynda að það hálfa væri nóg.
Segi frá því seinna hvað það er, en mikið vildi ég að ég væri búin með þetta, búin að lesa það yfir og skila því. Það er nefnilega ekki nóg með að þetta sé niðurdrepandi heldur er líka um langan texta að ræða, meira en helmingi lengri en í venjulegri kvikmynd.
Hvítasunnuhelgin fer sem sagt í deprimerandi vinnu og fátt annað.
Við fengum reyndar ágæta heimsókn í dag, góðan vin sem við höfum ekki séð allt of lengi. Það var býsna notalegt að taka sér frí frá ömurleikanum og rökræða um allt milli himins og jarðar og ágætt að vera ekkert endilega alltaf sammála.
Og heimsfréttirnar að undanförnu hafa ekki verið til að hressa upp á andlegu hliðina og svo sem ekki heldur innlendar kreppufréttir. Ég held hreinlega að allt sé að fara til helvítis, ekki bara hér á Íslandi heldur hvarvetna í veröldinni. Tökum bara Burma - eða Mjanmar eins og það heitir núna - ef stjórnvöld eru ekki að hrella borgarana og kúga þá taka náttúruöflin við. Og þá vilja stjórnvöld að sjálfsögðu ekki hleypa starfsfólki erlendra hjálparstofnana inn í landið. Þau vilja auðvitað gjarnan taka við hjálpargögnum en vilja ráðstafa hjálpinni sjálf. Hljómar það ekki svolítið grunsamlega? Hvar skyldi hjálpin svo lenda? Ég er ansi hrædd um að mikið af henni lendi hjá stjórnarherrunum sjálfum.
En þar sem ég hef ekkert upplífgandi að segja held ég að best sé að hætta.
Lifið heil.

sunnudagur, maí 04, 2008

 

Ánægjuleg helgi

Þar sem afmælið mitt bar upp á laugardag þetta árið ákvað ég að hafa fjölskylduna í kaffi. Fjölskyldan syðra sem stödd er á landinu mætti eins og hún lagði sig og við áttum ánægjulega stund saman. Eiginmaðurinn gaf mér óvænta afmælisgjöf - myndina sem hann tók í Kanada af fílunum á sléttunni. Nei, við sáum enga fíla á sléttum Kanada en á Íslendingadaginn á Gimli sá ég á markaðinum alveg yndislega fallega mynd af fílahjörð á hlaupum á afrískri sléttu. Myndin var of stór til að drösla henni á milli heimsálfa og ég sá mikið eftir að geta ekki tekið hana með mér heim. En bóndinn var svo sniðugur að hann tók mynd af myndinni, stækkaði hana og lagfærði í tölvunni og lét síðan innramma hana fallega og á laugardagsmorguninn var búið að stilla henni upp í vinnuherberginu mínu, mér til einkar óvæntrar ánægju. Og Hulda og Krissi færðu mér kaffipakka og ljónsunga (tuskudýr) svo ég fékk bæði fíla og ljón í afmælisgjöf. Sem sagt: Góður afmælisdagur.
Í morgun vöknuðum við svo nógu snemma til að vera á undan mestu traffíkinni í sundlaugina og gátum svamlað þar nægju okkar í ro og mag áður en haldið var heim og tekið til við að vinna fyrir salti í grautinn. Ekki veitir nú af. Við erum búin að borga Ameríkuferðina og lítið eftir undir koddanum - en samt nóg til að við sofum sæmilega rótt.
Og nú er verið að fremja fyrsta grill sumarsins á svölunum á Tjarnarbóli. Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina um grillaðar lambakótelettur með piparsósu! Namm!
Megi kvöldið verða ykkur ljúft og gott.

fimmtudagur, maí 01, 2008

 

Nöldur

Einn er sá sjónvarpsþáttur sem ég get ekki með nokkru móti horft á lengur en sem nemur kannski hálfri mínútu áður en ég finn mig knúna til að forða mér. Þáttur þessi heitir því þjóðlega nafni Geim Tíví, reyndar skrifað upp á ensku Game TV því íslenskan er víst ekki nógu fín. Því miður er það svo að piltungarnir tveir sem sjá um þáttinn kunna tæplega móðurmálið (sbr. "orðrómana") og eru þar að auki varla talandi en láta móðan mása þótt ekkert vit sé í því sem þeir eru að segja. Og það versta er að mestur hluti þeirra sem horfir að staðaldri á þessi ósköp eru unglingar sem einmitt þyrftu að heyra rétt farið með tungumálið. Ég fæ ekki bara aulahroll af að horfa á þetta heldur sprettur beinlínis gæsahúð út um allan kroppinn.
Og hér mætti koma amen eftir efninu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?