sunnudagur, apríl 24, 2005

 

Mátulega sloppin

Var svo að heyra í fréttunum að um það leyti sem við yfirgáfum Grindavík hefði komið þar snarpur jarðskjálftakippur! Ekki fundum við fyrir neinu - mátulega sloppin!

 

Gleðilegt sumar!!!!

Blessað vorið birtist aldrei þessu vant á sumardaginn fyrsta. Það er svona varla að maður þori að vona að það komi ekki kuldakast aftur - tíu stiga hiti dag eftir dag í apríl er eiginlega ótrúlegt. Það minnir mig reyndar á skáldsöguna Hitabylgja í apríl sem ég var einu sinni byrjuð að skrifa en heyrir nú sögunni til. Ég ætlaði reyndar ekki að tala um gamlar hugdettur heldur að segja hvað það er gaman þegar eitthvað kemur manni skemmtilega á óvart. Í dag fórum við hjónin sem sagt í Bláa lónið eins og við gerum stundum og okkur datt í hug að fá okkur kaffi á eftir á hótelinu þar, Northen Light Inn eða Norðurljósakránni. Við vorum auðvitað svo óheppin að þar var lokað vegna breytinga og hvorki vott né þurrt að fá nema fyrir hótelgestina. Þar sem við höfum svo oft fengið okkur eitthvað í veitingahúsinu í Bláa lóninu ákváðum við að brenna inn í Grindavík og athuga hvort ekki væri eitthvað að fá í Saltfisksetrinu þar. En viti menn - þegar til Grindavíkur kom var leiðin inn í bæinn lokuð vegna einhverra framkvæmda og við þurftum að fara einhverja hjáleið til að komast niður að höfn. Sem við erum svo að aka þar sjáum við þetta líka ljómandi fallega hús og við nánari athugun var þetta veitingastaðurinn Saltfiskhúsið (nema hvað í Grindavík?) og við ákváðum að kíkja þar inn. Þetta reyndist hinn huggulegasti staður svo ég pantaði mér samloku og Jón fékk sér að sjálfsögðu heitt eplapie með rjóma. Meðan við vorum að bíða fór ég að skoða mig aðeins um og það endaði með því að okkur var boðið að skoða húsið hátt og lágt og þetta er glimrandi skemmtilegt veitingahús með koníaksstofu og þremur sölum. Og ekki skemmdi fyrir að veitingarnar voru svo ljómandi góðar og lystugar, það er langt síðan ég hef fengið svona góða, ristaða samloku. Saltfisksetrið verður því að bíða betri tíma og ég mæli með því að renna til Grindavíkur og prófa þennan stað. Hann fær margar stjörnur hjá mér.

Mér leiðist þegar...
Mér leiðist þegar fólk er að reka hornin í aðra án þess að hafa neitt fyrir sér í því nema:
„Ég heyrði þetta einhvers staðar, ég man ekki hvar.“ Þetta kemur því miður stundum fyrir og ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta getur verið hættulegt. Og svo þegar maður leiðréttir hlutina eða segist ekki hafa þá reynslu af viðkomandi er sagt: „Nei, auðvitað getur þetta bara verið vitleysa.“ Þá er spurningin við hverja fleiri er búið að segja eitthvað svipað og um hverja. Mikið vildi ég að fólk hugsaði svolítið áður en það segir eitthvað svona.

Auðvitað gat ég ekki látið það vera að nöldra pínulítið þótt vorið sé komið, en annars er það að segja að við Ella vinkona erum búnar að bóka ferð til Billund 4. júní og ætlum að vera hjá Vallý í viku. Það verður áreiðanlega mikið fjör og hlegið út í eitt.
Meira um það þegar þar að kemur.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

 

Habemus papam

Það var víst of mikil bjartsýni að halda að valinn yrði frjálslyndur kardináli á páfastól. Nú er Benedikt XVI, aka Rottveiler Guðs, tekinn við og það hlýtur að teljast sorgaratburður fyrir kaþólskar konur, barnmargar fjölskyldur og ég tala nú ekki um fyrir samkynhneigða. „Ljúfur maður og auðmjúkur,“ segir séra Jakob Rolland. „Afturhaldið hefur skrifast á Ratzinger,“ segir Karl Sigurbjörnsson. Það kemur trúlega fljótt í ljós hvaða stefnu maðurinn tekur en ég tel litlar líkur á að hann taki U-beygju hvað stefnuna varðar. En einn kost hefur maðurinn samt, hann er 78 ára svo það eru sláandi litlar líkur á því að hann sitji í 26 ár!
Nóg í bili, enda er ég ekki kaþólsk og mér kemur þetta ekki við. Mér varð bara hugsað til kaþólskra kunningjakvenna minna í Evrópu og víðar sem fannst afturhaldssemi og viðhorf hins liðna páfa til kvenna keyra um þverbak.

Nú ætla ég að taka lífinu með ró fram yfir næstu helgi og safna kröftum.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

 

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga

Það var hundfúlt að vakna klukkan sjö á sunnudagsmorguninn og svima svo mikið að maður komst varla fram úr og verða svo flökurt í ofanálag. Tókst samt að sofna aftur í þessu volæði og sofa til klukkan að verða ellefu. Slappleikinn alveg að drepa mig fram undir kvöld og ég er enn ekki laus við þennan andsk... svima. En það er eins og vorið sé að koma enda sumardagurinn fyrsti ekki á morgun heldur hinn og bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Í gær var bekkjarpartí hjá Fríðu Bjarna, æðislega gaman að hitta stelpurnar. Það er eins og við verðum alltaf 17 ára aftur þegar við hittumst. Ég þurfti að bregða mér frá á milli súpu og aðalréttar til að syngja á opnum samsöng í Domus Vox. Tókst að klúðra Með en primula veris rækilega en Kossavísurnar tókust ágætlega. Það er líka búið að vera ferlegt slen í mér síðan á föstudag, veit ekki hvort þetta er bara þreyta eða eitthvað þaðan af verra - vonandi ekki. Mig dauðlangar að skríða upp í rúm (eða jafnvel undir það) og sofa í mánuð en það hefur sjaldan verið eins mikið að gera hjá mér svo það verður líklega að bíða fram í miðjan maí eftir að ég útskrifast með 5. stig. Annars erum við Ella ákveðnar í að fara til Danmerkur 4. júní og vera hjá Vallý í viku, það verður ekki amalegt að slaka á hjá henni.
En nú verð ég að fara að gera eitthvað af viti, þetta dugar ekki lengur. Meira við tækifæri.

laugardagur, apríl 09, 2005

 

Allt er gott sem endar vel - eða þannig

Þá eru Kalli og Kamma komin í það heilaga og þó reyndar ekki, þetta var borgaraleg vígsla. En ég vona bara að þau lifi hamingjusöm til æviloka, en það er víst ekki hægt að óska þess að þau eignist börn og buru því Kamma mun komin úr barneign. Eins og ég hef sagt áður er hreint skelfilegt að gamlar, úreltar hefðir komi í veg fyrir hamingju fólks og að mannslífum sé jafnvel fórnað á altari hefðanna. Nei, fjandinn hafi það. Girndarhjónabönd voru litin hornauga á Íslandi á 19. öld og þannig er það víst enn meðal aðalsins í Bretlandi. Ja, svei. Mikið rosalega er ég heppin að vera ekki af breskum aðalsættum! Maður hefur svo sem fyrir margt að þakka.

Dagurinn hófst á kóræfingu frá kl. 9.30 til 11.30, við tókum efnið sem við eigum að syngja á afmæli Vigdísar en mér fannst það ekki ganga nógu vel. Kannski hefur það verið vegna þess að það voru allir þrír kórarnir saman. Svo tóku Gospelsystur You don't own me, en ég hafði ekki tekið nóturnar með og söng bara nótulaust og viti menn, það gekk upp. Ég sem sagt kann þetta betur en ég hélt, ruglaðist bara einu sinni í öllum shoo-unum og doowop-unum.
Gott mál.
Seinnipartinn í dag var ég í klukkutíma með Arnhildi píanista og tókst bara býsna vel upp þótt ég segi sjálf. Lögin þrjú sem ég vel sjálf kann ég orðið 110%, meira að segja Kossavísurnar sem ég hef ekki litið á síðan í fyrravetur, og hin sem við fórum yfir eru í fínu lagi, þurfa bara aðeins meiri pússun. Hanna Björk gat ekki verið með mér eins og hún ætlaði að gera, en það kemur tími eftir þennan tíma. Ég kvíði samt svolítið fyrir prófinu, það er allt annað að taka próf þar sem maður fær prófblað og veit eftir að líta á það hvort maður getur svarað spurningunum eða ekki. Þetta er eitthvað svo mikið matsatriði.
En sem sagt, ekki annað að frétta í dag, meira seinna. Over and out.

föstudagur, apríl 08, 2005

 

Er letin að drepa mig?

Nei, ég held að það séu frekar annir en leti. Þessi vika hefur liðið alveg ótrúlega hratt og ég hef verið að atast í mörgu. Það er komið á hreint að stigsprófið verður 2. maí svo ég ákvað að slaufa kvennakóramótinu sem verður 29. apríl til 1. maí, eins gott að æfa þessi ellefu lög sem ég þarf að standa klár á. Svo er afmæli Vigdísar á föstudaginn og við eigum að syngja í veislunni um kvöldið, æfing í fyrramálið út af því (og einhverju fleiru) og síðan klukkutímatörn með Arnhildi klukkan þrjú og þá ætlar Hanna Björk líka að mæta og taka mig í gegn. Á milli þess sem ég hef henst í söng og krarftöngu hef ég setið við tölvuna og þýtt, get væntanlega skilað einum feitum reikningi og öðrum horuðum á mánudaginn! Eftir hádegið í dag vorum við hjónin á ótrúlegum þeytingi milli staða í tvo og hálfan tíma og enduðum inni í Holtagörðum þar sem við byrjuðum á að fara í Ikea og kaupa dót sem okkur hefur alltaf vantað, síðan lá leiðin í Rúmfatalagerinn og eftir innkaup þar sáum við að okkur vantaði enn einn hlut úr Ikea svo það var farið þangað aftur og svo endað í Bónus til að kaupa í matinn. Áður en við komum í Holtagarða vorum við búin að fara á sex staði, þ.e. Sjúkraþjálfun Reykjavíkur, Nýherja, Þýðingar og textaráðgjöf, Myndbandavinnsluna, Þvottahúsið Fönn og Dekurhornið. Komum klyfjuð heim og nú nenni ég ekki að fara að vinna. Nei, það er ekki leti, það er bara heilbrigð skynsemi. Í kvöld förum við Inda svo saman til Skúla frænda að ræða útgáfumál Rauðhyltingabókar, það verður ekki leiðinlegt. Á morgun má ég svo til að hringja í Sævar í Rauðholti, hann var að reyna að ná í mig í vikunni en ég var auðvitað aldrei heima og þegar ég var svo loksins heima var ég of upptekin til að hringja. Þetta gengur auðvitað ekki, skammastu þín Sigríður! Nú ætla ég bara að slaka á, Hulda ætlaði kannski að kíkja inn á eftir og sækja afmælisgjöfina - það er nú ein skömmin enn að hafa ekki komið gjöfinni til hennar á mánudaginn þegar hún átti afmæli. Hulda er samt ekkert fúl út af því svo Guð hlýtur að fyrirgefa það líka. Ætli ekki það.
Segi þetta gott í bili og reyni að vera duglegri í næstu viku.

sunnudagur, apríl 03, 2005

 

Nú er úti norðanvindur

Nú er úti norðanvindur,
nú er hvítur Esjutindur.
Ef að ég ætti úti kindur
myndi ég setja þær allar inn,
elsku besti vinur minn.

Já, Esjutindur er hvítur og karlinn í lauginn er alltaf að fikta í vigtinni en mér er nokk sama. Í dag synti ég 1000 metra (Jón segir reyndar að það hafi verið meira) og ætla að halda því áfram. Ef ég geri það kannski tvisvar í viku og fer í kraftgöngu tvisvar í viku ætti ég að komast í form. Ég er reyndar orðin miklu þolnari eftir alla gönguna í vetur og get ekki hugsað mér að hætta í henni. Við vorum auðvitað svo óheppin að Hornstrandaferðin verður akkúrat sömu helgina og ættarmótið og við ætlum frekar að mæta á það. Ég gert ekki hugsað mér að missa af því, manni líður alltaf svo vel í hjartanu á eftir. Hornstrandirnar verða á sínum stað næsta sumar og kannski gætum við hjónakornin farið tvö ein einhverja aðra helgi í sumar. Við erum hvort sem er að spá í að heimsækja galdramenn á Ströndum (skoða Trékyllisvík) og þá er lítið mál að halda áfram til Ísafjarðar og taka ferjuna yfir Djúpið. Við sjáum til.

Ég var í dag að byrja að þýða svolítið góða mynd (auðvitað ameríska og sykursæta) um konu sem sagt var upp sem fréttaþul á sjónvarpsstöð af því hún þótti of gömul og þá var mér hugsað til vinkonu minnar sem lenti í því sama í vetur (hún er reyndar lögfræðingur og kom ekkert nálægt fjölmiðlum). Hvers vegna í ósköpunum er kláru, samviskusömu og harðduglegu fólki sagt upp ef það er komið yfir einhvern vissan aldur? Hughreystingin sem vinkona mín fékk var að hún gæti bara farið á atvinnuleysisbætur þar til hún færi á eftirlaun. Oj, bara! Ég þoli ekki þessa andskotans æskudýrkun. Þekkist ekki lengur að ungt fólk öðlist reynslu í starfi og vinni sig upp? Svari því sá sem veit. En nóg af tuði í bili, tuða kannski meira seinna.

Á morgun verður Hulda 22ja ára. Ótrúlegt að eiga svona gamalt barnabarn.
Og svo er hún alveg gullfalleg og stórglæsileg stúlka - og svo dásamlega normal.

föstudagur, apríl 01, 2005

 

Merkilegur dagur

Eftir að hafa hrapað í áliti hjá mér í hádeginu langt niður fyrir núllpunktinn silaðist Auðun Georg Ólafsson upp fyrir hann aftur þegar hann ákveð að taka ekki við starfi fréttastjóra á ríkisútvarpinu. Reyndar verð ég að segja að ég dauðvorkenni honum, þetta er bara ungur strákur sem lenti í því að vera leiksoppur hrokafullra pólitíkusa. Ég efa ekki að hann er ágætisdrengur, samviskusamur og góður starfsmaður - en almáttugur, hann á greinilega ótalmargt ólært. Það er samt líklega til of mikils mælst að ætlast til þess að Markús Örn segi upp. En hvernig er annars hægt að sitja sem yfirmaður ef starfsmennirnir treysta manni ekki? Það verður Markús blessaður að gera upp við sig - en við vitum auðvitað öll hver útkoman verður.

Jæja, nóg um það. Svo virðist sem páfinn hafi gefið upp öndina núna í kvöld þótt það hafi ekki verið staðfest af Vatíkaninu. Það er auðvitað atburður sem snertir alla heimsbyggðina og vonandi að nú verði valinn einhver frjálslyndur kardináli, það verður að segjast eins og er að kaþólska kirkjan er farin að minna ískyggilega mikið á miðaldastofnun. Og svo er ekki samræmi í hinum ýmsu yfirlýsingum eins og núna þegar það er fordæmt að taka næringarslöngurnar úr sambandi hjá Terri Schiavo, einhver kardináli lýsti yfir að það væri árás á Guð, skapara lífsins. Ég man ekki betur en það hafi líka verið fordæmt þegar byrjað var með líffæraflutninga og það hafi verið kallað að „taka fram fyrir hendur skaparans“. Leiðréttið mig endilega ef það er rangt.

Uppáhöldin mín (er hægt að segja svona?) í American Idol eru öll inni enn þá, verða það vonandi smátíma enn, en það eru þau Constantin, Anwar, Nadia og Waleeza (mig minnir að hún heiti það). Mér fannst hálfdapurlegt að sjá að Anwar og Nadia voru svona neðarlega síðast, ég hefði frekar viljað sjá Scott og Anthony, þann rússneska, í þeirra sporum. Eða hvað, er ég bara að dæma fólk eftir útlitinu? Kannski er ég ekki eins fullkomin og ég held.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?