sunnudagur, desember 25, 2005

 

Jólin eru góð

Sama af hvaða ástæðum fólk heldur þau.

fimmtudagur, desember 22, 2005

 

Jólasveinka

Where art thou, Mother Christmas?

Where art thou, Mother Christmas,
I really wish I knew
Why Father should get all the praise
And no one mentions you.

I'll bet you buy the presents
And wrap them large and small,
Then in the end our cunning friend
Pretends he's done it all.

So hail to Mother Christmas
The uncomplaining slave
And down with Father Christmas
That good-for-nothing knave.

Ljóð eftir Roald Dahl

Hvar ertu, Jólasveinka?

Hvar ertu, Jólasveinka?
Ég vildi vita það.
Hví fær Sveinki hrósið allt
en þú kemst ekki á blað?

Ég veit þú velur gjafir
og vinnur þúsundfalt
á við þennan letingja
sem læst þó gera allt.

Ég hylli Jólasveinku
sem kvarta ekki kann
og kasta gömlum montrassi
á dyr, - ef birtist hann.

Þýðing Sigríður Magnúsdóttir

Gleðileg jól nær og fjær til sjávar og sveita!

sunnudagur, desember 18, 2005

 

Jólin nálgast

Jólin nálgast óðum og enn er mörgu ólokið en ég ætla ekkert að stressa mig yfir því, jólin koma nefnilega hvort sem er. Þegar við komum úr sundinu áðan duttum við inn í búð og festum kaup á þessum líka sæta jólasveini (reyndar Coca Cola sveini) sem stendur nú á borðinu hérna á stigapallinum og brosir framan í alla sem leggja leið sína á efstu hæðina. Ljósin á svalirnar fóru upp fyrir viku síðan og í næstu viku verða jólin svo undirbúin í rólegheitum.
Tónleikarnir tókust vel og haldið þið að við höfum ekki fengið þessa frábæru krítik. Ég er auðvitað sérlega ánægð með umsögnina um Mary had a baby, sem ég leyfi mér að endurtaka hér: "...mig rekur ekki minni til að hafa heyrt "negrasálminn" Mary had a baby á kórtónleikum hérlendis fyrr. Og hafi ég gert það trúi ég ekki að hann hafi verið eins skemmtilega fluttur. Ég myndi muna eftir því. Rétta sveiflan var til staðar sem ekkert er sjálfgefið..."
Og krítikinni lýkur með þessum orðum: "Slá þú hjartans hörpustrengi eftir Bach... var þrungið andtakt en líka tæknilega vandað og var það viðeigandi endir á frábærri dagskrá."
Hvað viljið þið hafa það betra?

Í gær fór ég svo á tónleika Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna og Kvennakórs Garðabæjar í Seltjarnarneskirkju. Þeir voru frábærir, þessi hljómsveit er hreint brilljant og heillaði mig upp úr skónum. Kórinn var líka fínn og söngkonan sem söng einsöng æðisleg. Það var frábært að geta setið úti í kirkju og notið þess að hlusta á aðra.

föstudagur, desember 16, 2005

 

Pólitísk ákefð

Kosið af ákefð í Írak er forsíðufyrirsögnin í Mogganum í dag. Ég hef kosið býsna oft en man ekki eftir að hafa gert það af neinni sérstakri ákefð. Kannski vegna þess að mér hefur alltaf þótt sjálfsagt að mega kjósa. Eða kannski skortir mig einfaldlega pólitíska ákefð.

 

Að tónleikum loknum

Tónleikarnir tókust vel bæði kvöldin. Harðorði gagnrýnandinn sat á fremsta bekk í gærkvöldi, það verður spennandi að sjá hvað hann segir. Þegar eiginmaðurinn vakti mig í morgun hljómuðu til mín englaraddir úr útvarpinu, Gospelsystur Reykjavíkur voru að syngja. En svo var afkynningunni klúðrað og við kallaðar Gospelkór Reykjavíkur, sem er sko allt önnur Ella. Ég er sem sagt komin í söngfrí fram í miðjan janúar og mig grunar að eitthvað spennandi sé í bígerð á vorönninni en nú ætla ég að einbeita mér að vinnunni og reyna að koma einhverju lagi á heimilið fyrir jólin. Og svo á ég eftir að kaupa hálfa jólagjöf. Mig blóðlangar á nemendatónleika í Domus Vox í dag kl. 18.00. Það gæti verið notalegt að sitja sjálf úti í sal og sjá aðra engjast á sviðinu. Gott að vera búin að ljúka þeim ósköpum.
Svo er það ekki fleira að sinni. Góðar stundir.

miðvikudagur, desember 14, 2005

 

Enn á ný eymd og volæði

Ég veit ekki hvað þetta er með mig, ekki nema mánuður síðan ég lá síðast í pest og núna um helgina fékk ég þetta líka heljarinnar kvef og hef ekki verið með sjálfri mér. Hélt jafnvel að ég gæti ekki sungið með kórnum á aðventutónleikunum, en eitthvað gerðist svo seinnipartinn í gær og ég er að verða nokkuð þokkaleg núna. Ætla að mæta og sjá hvað ég get, ég verð þá bara að þegja ef svo ber undir.
Annars var helgin frábær - Danni, Gulla og strákarnir komu að norðan og voru hjá okkur í tvær nætur. Við höfðum svo hina fjölskylduna líka í mat á laugardagskvöldið - Hulda & Co. voru reyndar að fara í leikhús og komust ekki - og hér var borðaður góður matur og setið og spjallað langt fram eftir kvöldi. The Fantastic Four voru ánægð að hittast, mér finnst samt ótrúlega stutt síðan þau sátu hérna á gólfinu og dunduðu sér.

mánudagur, desember 12, 2005

 

Brosað gegnum tárin

Nýja alheimsfegurðardrottningin þurfti að bera hönd að auga og þurrka tár af hvarmi þegar úrslitin voru tilkynnt. Annars vorum við Danni og Gulla að ræða fegurð íslenskra kvenna og komumst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að setja staðal á fegurðina. Hvernig á að mæla meðaltalsfegurð? Nú er lag að stefna að því að fá Nóbelinn fyrir að finna mælikvarða sem nota má á huglæg fyrirbæri. Er fegurðin ekki annars í augum sjáandans? Ég bara spyr.

fimmtudagur, desember 08, 2005

 

John Lennon

Í dag eru 25 ár síðan John Lennon var myrtur. Ég man mjög vel þegar ég fékk fréttina af því í morgunútvarpinu. Við bjuggum þá í Hafnarfirði og vorum að drekka morgunkaffið og höfðum auðvitað kveikt á útvarpinu en við vorum eitthvað að tala og hlustuðum ekki beint á það sem verið var að segja þar til eldri sonur minn, sem þá var í menntaskóla, segir allt í einu: „Uss, þegið þið!“ Ég sneri mér að honum og ætlaði að segja að svona segðu vel upaldir ungir menn ekki við foreldra sína þegar hann bætir við: „Það er búið að skjóta John Lennon.“ Við steinþögnuðum auðvitað og hlustuðum agndofa á þessar fréttir og ég fór að gráta. Svo fórum við öll sitt í hvora áttina og ég ók í vinnuna mína inn í Reykjavík og var skælandi alla leiðina. Mætti svo útgrátin og þrútin um augun og man að fólki fannst skrýtið að ég skyldi gráta John Lennon svona, en ég gerði það nú samt. Hann var stórkostlegur snillingur og Bítlarnir hljómsveit sem aldrei gleymist. Af lögunum hans held ég að ég haldi mest upp á Imagine, kannski vegna textans sem á jafnt við í dag og þegar hann var saminn. Imagine all the people living life of peace.

Það er öllu gleðilegra að bróðir minn á afmæli í dag og ég vona að hann megi eiga marga, marga, ótal afmælisdaga enn þá í góðu yfirlæti. Ég hringi í hann á eftir og óska honum til hamingju.

laugardagur, desember 03, 2005

 

Heimskir, hvítir karlar

Í kvöld horfði ég á enn einn þáttinn í sjónvarpinu um heimska, hvíta karla. Það er eins og það sé endalaust hægt að gera grín að þessum hópi og ég er alveg hissa hvers vegna miðaldra, hvítir karlmenn taka sig ekki saman og mótmæla þessu - konur myndu örugglega bindast samtökum og gera eitthvað í málinu. Getur verið að það sé eithvað til í þessu með heimskuna?

föstudagur, desember 02, 2005

 

Sendiherrastaða

Mig langar alveg óskaplega til að verða sendiherra. Ég held að ég hafi allt til að bera í það starf, ég er þokkalega máli farin, kann mig innan um heldra fólk og hef sýnt og sannað að ég get haldið skemmtilegar veislur - og ég tala betri ensku en núverandi forsætisráðherra. Vandamálið er bara að sendiherrastöður eru aldrei auglýstar lausar til umsóknar. Mikið þætti mér vænt um ef einhver góð manneskja með sambönd myndi nú hnippa fyrir mig í utanríkisráðherra næst þegar eitthvað losnar.
Þá er það ekki fleira að sinni.

fimmtudagur, desember 01, 2005

 

Jólaskap

Veðrið er svo fallegt að það eitt að líta út um gluggann kemur manni í jólaskap.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?