miðvikudagur, ágúst 30, 2006

 

Hermennska

Ekki skil ég hvað það er sem rekur unga íslenska pilta - og reyndar líka stúlkur - til að gerast hermenn. Er virkilega svona eftirsóknarvert að fá þjálfun í að drepa aðra? Og enn síður skil ég fjölmiðlunga sem elta þetta lið út og suður - jafnvel alla leið til Írak - og reyna að gera úr því einhverja dýrlinga. Nei, andskotinn hafi það, ég skil þetta ekki. Afsakið orðbragðið.

mánudagur, ágúst 28, 2006

 

Sunnudagskaffi

Í gær fórum við í sunnudagskaffi til frumburðarins og hans heittelskuðu í nýju íbúðina. Ég skil vel að þau séu ánægð því íbúðin er eins og sniðin fyrir þau og það er orðið ósköp heimilislegt hjá þeim. Og það er ekki verra að hún skuli vera í 107 - krakkarnir þurfa ekki að fara úr hverfinu. Ísold mun vera hin ánægðasta í FÁ. Það er alltaf erfitt að byrja í framhaldsskóla, ég tala nú ekki um að fara úr bekkjarkerfi yfir í áfangakerfi. Annars mæli ég með áfangakerfi, þar er hægt að taka fögin á réttum hraða fyrir hvern og einn og bæta við einum og einum skemmtilegum áfanga til að það sé ekki eintómt stagl á ferðinni. Vona bara að ánægjan haldist áfram. Reyndar voru krakkarnir hjá mömmu sinni svo við hittum þau ekki en skv. föðurnum er allt í lukkunnar velstandi hjá þeim að venju.

laugardagur, ágúst 26, 2006

 

Myrkraverk - og þó?

Það tilkynnist hér með að ég er að fremja myrkraverk. Perurnar í báðum loftljósunum eru sem sagt farnar. En sem ég sit hér og skrifa þetta kemur eiginmaðurinn með áltröppuna og segir: "Best að laga allt fyrst maður er að þessu á annað borð," og eyðileggur þannig myrkraverkið fyrir mér. Og nú er búið að skipta um peru á báðum stöðunum. Annars er það að frétta héðan af Tjarnarbóli að í gær keyptum við geysifallegan hillurekka á baðið í staðinn fyrir basthilluna sem var bráðabirgðalausn fyrir hartnær 20 árum. Morguninn fór í að skrúfa hann saman og nú er baðið hjá okkur geysilega flott. Og við erum líka búin að fara í Sorpu með basthilluna og allt pappadraslið. Vitið þið að það munar bara einum staf á basthilla og Bastilla?

 

Afsökunarbeiðni

Ég biðst innilega afsökunar á að hafa sagt að siglingamótið hafi farið fram í Nauthólsvíkinni, það fór auðvitað fram á Nauthólsvíkinni. Unglingarnir voru að sigla á sjónum en ekki að svamla í honum. Búin að leiðrétta þetta í blogginu.

föstudagur, ágúst 25, 2006

 

Arfur til komandi kynslóða

Íslendingasögur hinar nýrri: Mannlíf og Séð og heyrt.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

 

Öskureið

Um síðustu helgi, þ.e. föstudag og laugardag, fór fram landsmót í siglingum hérna á Nauthólsvíkinni. Ekki hef ég orðið vör við að fjallað væri um mótið í neinum íþróttakálfanna sem fylgja dagblöðunum né heldur í íþróttafréttum sjónvarpsstöðvanna. Er ástandið virkilega þannig að ekkert sé íþrótt ef bolti kemur ekki við sögu? Þarna var fjöldi unglinga sem hefur æft kappsamlega á heimaslóðum og leggur á sig ferð hingað til að taka þátt í landsmóti og svo eru það bara nánustu ættingjar og vinir sem vita af því og vita hvaða afrek þetta unga fólk var að vinna. Ég verð að segja að ég er öskureið fyrir þeirra hönd sem tóku þátt í mótinu og er alvarlega að spá í að hafa samband við íþróttafréttamenn á dagblöðum og sjónvarpi og hundskammast - eða allavega að vanda um við þá.
Hvað finnst ykkur hinum?

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

 

Já, var það ekki?

Þetta vissi ég. Með nýjum degi hvarf vonda skapið eins og dögg fyrir sólu og hafi eitthvað setið eftir af því þegar ég vaknaði þá skildi ég það eftir í Sundlaug Seljtarnarness í morgun. Ég átti líka von á því að indverska hugleiðslan á laugardaginn myndi hafa áhrif langt fram í vikuna og sú ætlar að verða raunin. Þetta var bara einhver vírus sem gerði vart við sig í gær. Nú eru bara skemmtilegir dagar framunan og bannað að láta neitt hafa slæm áhrif á sig. Góðar stundir.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

 

Vont skap

Mikið andskoti hef ég verið í vondu skapi í dag - ekki bara fýlu heldur reglulega leiðu skapi. En á morgun kemur nýr dagur og hver veit nema þetta lagist þá.
Hrelli ykkur ekki með meiri skrifum í bili.

mánudagur, ágúst 21, 2006

 

Menningarnótt

Ekki gerðum við hjónakornin neitt merkilegt á menningarnótt - eða öllu heldur menningardag. Dvöldum reyndar drjúga stund hjá Sævari Karli í Bankastrætinu og hittum mann og annan - og konur. Áttum svo eftir að fara í helgarinnkaupin og komum heim seint og um síðir en þá þurfti ég að setjast við tölvuna og vinna. Ekki vannst tími til að fara að sjá sonarsoninn í siglingakeppninni en við fengum SMS um úrslitin og hittum svo drenginn í gærmorgun áður en hann fór til síns heima. Mér heyrðist vinurinn ekkert sérlega ánægður með frammistöðuna en finnst hann samt alveg mega vel við una, gengur bara betur næst - eða þannig. Það er Akureyrarkeppni um næstu helgi og hann mætir að sjálfsögðu galvaskur í hana.
Og svo hrannast að mér verkefnin, ég þarf víst ekki að sitja með hendur í skauti á næstunni, hræddust er ég bara um að við komumst ekki í haustfrí eins og við höfum hugsað okkur. Ég gæti reyndar unnið fram í tímann til að sleppa burt en ég er hrædd um að eiginmaðurinn eigi ekki eins gott með það.
En það kemur bara í ljós - óþarfi að hafa áhyggjur af því strax.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

 

Fiskidagurinn mikli

Athyglisverð Akureyrarferð um síðustu helgi náði hámarki þegar við litum á Fiskidaginn mikla á Dalvík. Það var alveg ótrúlegt að vera þarna - ég get ekkert lýst því öðruvísi. Frábær matur, reyndar var ég sú eina úr hópnum sem fannst fiskivöfflurnar góðar. Og ég hreinlega slefaði þegar ég smakkaði hrátt hrefnukjöt á sushi-barnum hjá Úlfari, lagði leið mína þangað oftar en einu sinni. Gott framtak hjá Dalvíkingum og ótrúlegt hvað ég hitti marga sem ég þekkti héðan af höfuðborgarsvæðinu, greinilega fengu fleiri en við þá hugmynd að kíkja á herlegheitin.
Á heimleiðinni á sunnudaginn var komið við á Hólum, en þar var þá Hólahátíð og flest allt fyrirfólk landsins samankomið ásamt prestum og pólitíkusum - og auðvitað biskupum. Við töfðum því ekki lengi þar, fengum okkur bara að borða alveg frábæra kjötsúpu, skoðuðum Auðunarstofu og fornleifauppgröftinn og gátum troðið okkur aðeins inn í dómkirkjuna rétt áður en hátíðamessan byrjaði. Svo stönsuðum við aðeins á Sauðárkróki til að skoða ýmsar minjar og gripi sem fundist hafa við fornleifauppgröft í Skagafirði. Eftir það var haldið heim með smástoppi "Við árbakkann" á Blönduósi og svo keyptum við í kvöldmatinn í Borgarnesi.
Hef hamast við vinnu síðan ég kom heim og held hamaganginum áfram fram í næstu viku en þá verður kannski smámöguleiki á að komast að Búðum.
Meira um það seinna. Lifið heil.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

 

Salírólegur sunnudagur

Þar sem eiginmanninum er farið að líða betur ákváðum við hjónakornin, þrátt fyrir miklar annir hjá ykkar einlægri, að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Við brunuðum þess vegna upp í Borgarnes að skoða Landnámssetrið og það olli sko engum vonbrigðum. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða, enda höfðum við heyrt að maturinn þarna væri frábær. Fiskréttur dagsins var saltfiskur með tómötum og ólífum sem hljómaði mjög girnilega en þar sem mig langaði ekki í stóran rétt svona í hádeginu og eiginmanninn langaði hreint ekkert í saltfisk enduðum við á því að panta pastarétti sem báðir voru framúrskarandi lystugir og góðir. Bóndinn pantaði tagliatelle með skinku í kryddjurtarjómasósu en ég fékk mér pasta (sem reyndist líka vera tagliatelle) í tómatbasilsósu. Reyndar sá ég að fólkið á næsta borði pantaði sér saltfisk og hann leit geysilega vel út. Prófa það kannski næst ef lystin verður meiri. Eftir matinn skoðuðum við báðar sýningarnar sem þarna eru og báðar eru listilega skemmtilega útfærðar. Það tekur hálftíma að fara í gegnum hvora fyrir sig og það verður að segjast eins og er að þessi klukkutími sem við vörðum í það var býsna fljótur að líða.
Við komum svo við á Akranesi á heimleiðinni að skila elsta bróður tjaldi og dýnu, en þau hjónin voru auðvitað ekki heima frekar en venjulega. Skildum dótið eftir á tröppunum hjá þeim í þeirri von að þau væru ekki farin burt í marga daga, enda hefðu þau varla skilið gluggana á jarðhæðinni eftir opna ef svo væri. Hringi í þau í kvöld og tékka á málinu.
Annað var það ekki núna. Lifið heil.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

 

Það rignir

Í dag rignir - en það er allt i lagi. Stundum verður að rigna og að undanförnu hefur veðrið verið upp á sitt besta svo það er engin ástæða til að kvarta núna. Sérstaklega af því að ég þarf að sitja inni og vinna. Það hafa nefnilega safnast að mér peningar að undanförnu og þá verð ég auðvitað svo gírug að ég segi ekki nei þegar mér bjóðast ný verkefni, mikið vill alltaf meira. En þetta er nú bara tímabundið, ég þarf að vera búin að skila þessu af mér um miðja næstu viku og sé ekki fram á annað en að það takist. Ég fór reyndar í klippingu og litun í dag og er nú hin glæsilegasta með ljósa blesu í hægri vanga og hvítan blett í hnakka mínum, Garún, Garún.
Rauðhyltingagleðin í Fannahlíð um síðustu helgi tókst með ágætum eins og vanalega - rúmlega 50 manns mættu og ég veit ekki betur en að allir hafi skemmt sér hið besta. Veðrið lék við okkur - það rigndi reyndar á tjöldin okkar á sunnudaginn (við vorum með tvö tjöld, eitt fyrir okkur og annað fyrir unglingana) svo við þurftum að hengja þau til þerris þegar við komum heim. Því miður kann svo að fara að þetta hafi verið í síðasta sinn sem við verðum í Fannahlíð. Eftir sameininguna er óvíst að húsið verði leigt út til samkomuhalds, það stendur víst til að þarna verði félagsmiðstöð fyrir unglinga og aldraða, en mér finnst nú að það mætti leigja húsið út á sumrin svona rétt til að fá eitthvað upp í viðhald. Og eins og Daníel, sonur minn, sagði þá fellur þessi gleðskapur okkar vel inn í þessa fyrirhuguðu starfsemi þar sem unglingar og aldraðir eru yfirleitt í meirihluta. Kannski ég hringi í nýja sveitarstjórann í Hvalfjarðarsveit og komi þessari skoðun á framfæri. Við sjáum nú til.
Annars er það af okkur að frétta að eiginmaðurinn er alger Lasarus þessa dagana. Hann á að fara í "grjótmulningsvélina" á Landsspítalanum (eða Mjölni eins og hún er kölluð) einhvern tíma um miðjan ágúst, en að undanförnu hefur hann verið að fá þursabit og alls kyns ónot og þau ekki lítil. Í dag gat hann sig varla hreyft, ég er hrædd um að hann sé með klemmda taug í bakinu. Vonandi lagast þetta í nótt, annars dríf ég hann til læknis á morgun. Við vorum einmitt að vonast til að komast að Búðum í næstu viku þegar ég verð búin með þessi verkefni, en við þorum hreinlega ekki að panta fyrr en honum fer að líða eitthvað skár. Hins vegar myndi hann hafa gott af tveggja daga dvöl á Búðum að drekka í sig kraftinn frá jöklinum - og líka kannski rauðvínslögg.
Meira þegar þar að kemur. Lifið heil.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?