þriðjudagur, maí 31, 2005

 

Meiri dýrðarinnar dásemd

Það er nú meira dýrðarinnar dásemdarveður búið að vera í dag, verst að ég hef eiginlega ekkert getað verið úti að njóta þess, en það hlýtur að standa til bóta. Var alveg rosalega dugleg að vinna í dag og ætla líka að vera það á morgun, hver veit nema ég geti klárað meira en ég ætlaði mér áður en ég fer út? Ég hef enn ekki komið myndinni af mér aftur á síðuna en ég fékk leiðbeiningar frá „frænda fyrir Westan“ um hvernig ég á að gera það. Ætli ég láti það ekki bara bíða þangað til ég kem heim aftur, eins og fleira. En takk fyrir, Maggi minn, ef þú lest þetta.

Áðan var ég við athöfn í háskólakapellunni í tilefni þess að í dag eru 60 ár síðan Geirþrúður Hildur Bernhöft lauk embættisprófi í guðfræði. Það var ánægjuleg stund og býsna gaman að henni lauk með söng á baráttuljóði eftir mig. Þær eru ansi margar konurnar sem við megum þakka fyrir að hafa rutt brautina fyrir okkur hinar í þessum hefðbundnu karlafögum. Ekki svo að skilja að ég hafi notað mér það sérlega vel, eini áfanginn sem ég hef lokið er 5. stigið í söng. En ég hef svo sem auðvitað menntað mig og held að sú menntun sem ég hef sé bara nokkuð góð, a.m.k. dugar hún mér vel í vinnunni og svona í lífinu almennt.

Eftir athöfnina var ég í einstaklega góðu skapi og þá flaug mér í hug að eiginlega þekkti ég bara jákvætt og skemmtilegt fólk en svo fór ég að hugsa mig betur um og sá að það væri réttara að orða það þannig að ég umgengst bara jákvætt og skemmtilegt fólk. Auðvitað þekki ég fólk sem er hvorugt en það er eins og ég hafi ómeðvitað valið að vera ekkert að skipta mér af því. Ég hef nefnilega komist að því að það er hægt að vera jákvæð baráttumanneskja og fólk sem berst með neikvæðni hefur oft ekki erindi sem erfiði. Sem sagt, taka á neikvæðum hlutum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

En nú er ég víst orðin einum of háfleyg og mál að hætta.

fimmtudagur, maí 26, 2005

 

Fátt nýtt að frétta

Það er fátt nýtt að frétta af okkur hérna á Tjarnarbólinu. Við erum aftur byrjuð í kraftgöngunni eftir mánaðarhlé, ég rétt get æft mig í hálfan mánuð áður en ég fer út. Það kom mér samt á óvart hvað ég var hress eftir hléið, ég er auðvitað þreytt að göngunni lokinni en ekkert umframkomin. Eftir gönguna höfum við líka farið beint í sund og gufu og það hefur áreiðanlega mikið að segja. Ætli ég verði ekki orðin mesti göngugarpur í ágúst þegar stöllurnar sem þjálfa okkur fara í frí og gangi bara og gangi upp á eigin spýtur. Ég hef horft á Esjuna úr fjarska og hugsað hvað það væri nú gaman að komast upp á topp, ég þekki vana konu sem fer upp og niður á fjórum tímum að mig minnir. Ég get nú samt ekki ímyndað mér að ég leiki það eftir.
Eftir gönguna í gær hittum við Daníel Frey uppi í Perlu, það kom skemmtilega á óvart. Hann er þá í skólaferðalagi með unglingana sína og verður hér í þrjá daga en ekki á ég von á honum í heimsókn, það er víst nóg að gera hjá honum að passa blessuð börnin.
Einhverra hluta vegna hvarf myndin af mér af síðunni þegar minn elskaði skipti um lén. Við erum búin að reyna allt sem við getum til að koma henni inn aftur og hún er í fínu lagi á dashboard, en það er eins og hún vilji ekki koma á sjálfa síðuna. Mér er svo sem sama, minn yndisþokki er heldur á undanhaldi svo ég læt fólki bara eftir að ímynda sér hvernig ég lít út.
Nú er heldur farið að hlýna en mér finnst samt skítkalt enn þá. Fór samt í uppáhaldsbúðina mína í dag (Villtar og vandlátar) og ætlaði að kaupa mér sumarbuxur en ef því ég brást ekki við strax í gær þegar ég fékk tölvupóst um að verið væri að taka upp nýjar vörur í Earth Collection var allt búið í mínu númeri þegar ég mætti á staðinn síðdegis í dag. Reyndar eru þetta danskar vörur, vel þekktar þar í landi, svo það er ekki ólíklegt að ég finni búð í Silkiborg eða Århus með þær. Það kemur bara í ljós, sem stendur á ég allavega buxur til skiptanna, en þó ekki meira.
Ég held að ég bíði með að setja blóm á svalirnar þar til ég kem aftur, það er hvort sem er ekkert gaman að sitja úti enn þá. Þegar hlýnar aðeins meira verður það fínt, enda eru svalirnar okkar alkunnur suðupottur.
Og svei mér þá ef ég held ekki að ég sleppi því að nöldra núna, ekkert hefur farið sérstaklega í taugarnar á mér undanfarna daga - nema kannski þegar ákveðinn stjórnmálaflokkur þykist hafa uppgötvað hjólið!

sunnudagur, maí 22, 2005

 

Nú blöskrar mér!

Ég er svo yfir mig hissa á þessu ættleiðingarmáli. Er nokkuð vit í því að hafna umsókn konu sem er í alla staði afar hæfur uppalandi á þeim forsendum að hún sé yfir kjörþyngd? Hvað er eiginlega að þessu samfélagi okkar, er útlitsdýrkunin farin að ná inn í ráðuneytin líka? Mig langar þess vegna að segja frá foreldrum mínum og æsku. Ég fæddist þremur mánuðum áður en móðir mín náði 45 ára aldri og nokkrum mánuðum síðar fyllti faðir minn 51 ár. Aukinheldur var móðir mín alla tíð vel yfir kjörþyngd og það er ekkert vafamál að nú á dögum hefði þeim örugglega verið neitað um að ættleiða barn. Ég get samt ekki ímyndað mér ástríkari eða umhyggjusamari foreldra, þau studdu mig alla tíð með ráðum og dáð og fylgdust grannt með því sem ég aðhafðist. Þau voru bæði heilsuhraust og náðu háum aldri, faðir minn lagðist til svefns kvöldið fyrir 87. afmælisdaginn sinn og vaknaði ekki að morgni og móðir mín lést hálfum mánuði áður en hún varð 86 ára eftir stutta banalegu. Ég finn ekki til þess að hafa skaddast af því að alast upp hjá svo fullorðnum foreldrum og móður sem var æði mikið þyngri en til væri ætlast í dag. Ég vona miklu fremur að mér hafi kannski tekist að endurgjalda þeim einhvern smáhluta af allri umhyggjunni.
Annað var það nú ekki sem ég ætlaði að segja hér í dag, ég vildi bara óska að ég gæti lagt konunni lið í baráttunni. Ég sá í blaði að þau „frægu og feitu“ ætla að hjálpa henni, kannski ég hafi samband við eitthvert þeirra þótt ég sé ekki fræg en kannski pínulítið yfir kjörþyngd!

fimmtudagur, maí 19, 2005

 

Ég get svo svarið það!

Ég verð nú að segja að ég er reglulega spæld yfir að við komumst ekki áfram í Evróvísjón. Sum lögin sem komust áfram voru vægast sagt skelfileg, en kannski hefur það sitt að segja hversu Austur Evrópa er fjölmenn. Ég gaf reyndar Ungverjunum stig af því mér fannst lagið frumlegt og flutningurinn skemmtilegur og svo fengu Norsararnir stig frá mér fyrir að vera svona dásamlega absúrd. Minntu svolítið á Queen ef ég man rétt. Þriðja stigið mitt fékk svo Mónakó en ég vissi svo sem að það kæmist ekki áfram. Allt of einfalt lag til þess en ósköp hugljóft og fallega flutt. En það dugir ekki að vera tapsár - við gerum bara betur næst. Selma stóð sig allavega vel og stelpurnar voru flottar í korselettunum. Líklega hafa þær ekki sýnt nóg hold miðað við söngkonurnar sem komust áfram. Nóg af þessu nöldri í bili.

Kvefpestin hefur verið að drepa mig en svo fékk ég loksins sýklalyf í gær og nú er líðanin að verða miklu betri svo ég er að hugsa um að drífa mig á rand með BPW annað kvöld. Það verður eitthvað voða mikið fjör svona í lok vetrarstarfsins. Það á að mæta við Landsbankann í Austurstræti klukkan háflsjö og gera eitthvað mjög dularfullt í miðbænum. Meira um það seinna.

Það er svo margt sem flýgur í gegnum huga mér svona í vetrarlok. Mér finnst lífið til dæmis alveg fádæma skemmtilegt þessa dagana þrátt fyrir pest og annir. Ég hlakka til sumarsins og vona að okkur gefist tækifæri til að ferðast svolítið um landið - norðanverðir Vestfirðir eru til dæmis mjög ofarlega á blaði hjá mér. Hvort okkur tekst það er svo annað mál en þar til það kemur í ljós ætla ég bara að vera glöð og kát og hlakka til.

Þegar sumarið guðar á glugga
er gaman að sitja ekki í skugga
heldur bjóða því inn
að dvelja um sinn
því sólskinið alla mun hugga.

laugardagur, maí 14, 2005

 

Vorið er komið og grundirnar gróa!

Vorið er komið og grundirnar gróa, það er allt að springa út í kringum okkur og krakkakrílin spretta fram í rauðum, bláum, grænum og gulum peysum og minna helst á lítil blóm. Og svo fékk ég einkunnina úr stigsprófinu í gær, hún var alveg þokkaleg eins og ég bjóst við og ég get verið alveg hæstánægð með hana. Eins og ég var nú taugaóstyrk á prófinu, gleymdi texta og allt hvað eina, sem hefur þó ekki komið fyrir áður. Og svo fékk ég frábæra umsögn bæði hjá Hönnu Björk og Sigríði Ellu prófdómara. Loksins hef ég náð einhverju markmiði sem ég hef sett mér, ligga, ligga lá!
En ég er auðvitað ekki laus við kvefpestina, hélt að ég myndi hreint krepera á fyrri tónleikunum á fimmtudagskvöldið en tókst einhvern veginn að hressast og var þokkaleg á þeim seinni. Tónleikarnir tókust alveg frábærlega, sérstaklega þeir seinni og Seth Sharp var alveg hreint frábær, enda átti ég ekki von á öðru. Auk þess að vera gullfallegur og syngja eins og engill hefur hann líka svo afbragðsgóða og þægilega nærveru að það er ekki hægt annað en hrífast af honum. En nú er sem sagt komin hvítasunna og ég hafði hugsað mér að nota hana bara í vinnu, en svo var ég að uppgötva áðan að mig vantar handrit að myndum sem ég er með fyrir Skífuna (eða Dag Group eins og hún heitir núna) og ég nennti ekki upp á Stöð 2 (eða 365 ljósvakamiðla) á föstudaginn að tæma úr hólfinu mínu svo ég hef ekki mikið að gera þessa tvo daga, er samt með fáeinar kápuþýðingar sem ég þarf að drífa af en annars neyðist ég víst til að hvíla mig. Ætli það sé ekki bara hið besta mál. Annars kemur fjölskyldan hér syðra í lambalæri annað kvöld og þá verður áreiðanlega heilmikið fjör ef ég þekki mitt fólk rétt.

Mikið finnst mér leiðinlegt þegar ég finn að fólk er að látast vera annað eða öðruvísi en það er í raun og veru. Líklega er það vegna þess að það telur sig ekki nógu gott eða fínt eða flott en mikið er ég hrædd um að því líði illa og fari á mis við margt út af þessari vitleysu. Og yfirleitt er þetta líka fólk sem er gersneytt öllum húmor fyrir sjálfu sér og ekki bætir það úr skák.
Þá er það ekki fleira í bili.

fimmtudagur, maí 12, 2005

 

Hálbólga, hæsi og hallæri

Hef verið að drepast í hálsinum síðan á laugardaginn var, var að vona að ég yrði orðin góð í dag en er það því miður ekki og tónleikarnir eru í kvöld. Reyni samt að hella í mig slímlosandi hóstasaft og C-vítamíni í von um að verða þokkaleg í kvöld. Held að þetta verði býsna góðir tónleikar - eins og auðvitað alltaf hjá Gospelsystrum. Ég treysti mér ekki til að mæta kl. 6.45 í morgun upp á Stöð 2 til að syngja í Íslandi í býtið en sá stelpurnar og Seth áðan á Netinu og þau voru auðvitað frábær. Meira um tónleikana seinna.

Mig langar til að benda fólki á að lesa grein Jóns Orms Halldórssonar í Fréttablaðinu í gær, Að muna og gleyma, sem er einhver sú besta sem ég hef lesið um þetta viðkvæma mál sem seinni heimsstyrjöldin er auðvitað enn. Hún fjallar sem sagt um um að gera upp við fortíðina til að geta horfst í augu við framtíðina. Vonandi fyrirgefur höfundurinn mér að ég leyfi mér að vitna í hana orðrétt: Það eru yfirburðir Hollywood í kvikmyndaheiminum en ekki sögulegar staðreyndir sem hafa gefið kynslóðum fólks á Vesturlöndum þá mynd af stríðinu að það hafi fyrst og fremst verið Bandaríkjamenn sem sigruðu Þýskaland. Framlag þeirra skipti miklu en sýnist um leið lítið í samanburði við framlag og fórnir Rússa. Rússneska þjóðin notaði stríðið í pólitískum tilgangi og hvorug þjóðin umgengst þessa miklu sögu af raunverulegri virðingu við fórnarlömb stríðsins. Bretar virðast fastir í gömlum og oft ósönnum staðalmyndum af sjálfum sér og öðrum. Frakkar neita að horfast í augu við dapurlegar staðreyndir um þjóð sína í síðari heimsstyrjöldinni. Japanir hafa einangrað sig í Asíu með afneitun sinni á nýlegri sögu landsins. Í þessum efnum ættu menn að taka Þýskaland sér til fyrirmyndar. Svo mörg voru þau orð og ákaflega skynsamleg eins og allt sem kemur úr penna þessa pistlahöfundar.
En fyrst ég er farin að fjalla um fjölmiðla má ég til með að segja fáein orð um þáttinn hjá Opruh í gær. (Svona er okkur þýðendum uppálagt að skrifa nafnið í þessu falli). Ég ætla svo sem ekkert að fara að hneykslast á hákarli og hrútspungum en það fer alltaf í taugarnar á mér þegar þessi ýkta áhersla er lögð á gífurlega fegurð og lauslæti íslenskra kvenna. Að vera laus við tepruskap varðandi kynlíf er eitt, lauslæti er annað og það finnast hérna líka feitar, heimskar og leiðinlegar konur eins og Guðmundur Steingrímsson benti skemmtilega á í Víðsjá í gær. Mér hefði bara fundist að það mætti minnast á að Íslendingar hefðu verið fyrstir manna til að kjósa konu í embætti forseta og einnig hefði mátt minnast á að borgarstjórinn í Reykjavík væri kona og ekki sú fyrsta til að gegna því embætti, að forstjóri stærsta flugfélags landsins væri kona og kona væri sömuleiðis forstjóri stærstu álverksmiðjunnar. Minna um lauslætið, meira um dugnaðinn.
Ég vil taka það fram af gefnu tilefni að þetta er ekki nöldur, ég er bara að láta álit mitt í ljós!

sunnudagur, maí 08, 2005

 

Mikið rosalega...

Mikið rosalega er gott að vera búin með prófið! Það gekk held ég nokkuð þokkalega miðað við að mér fannst ég allt í einu engan veginn nógu vel undirbúin, allavega veit ég að ég náði því - kannski hef ég bara rétt skriðið en það kemur í ljós föstudaginn 13. því þá fæ ég einkunnina og útskrifast. Það lofar auðvitað ekki góðu að það skuli einmitt bera upp á föstudaginn 13. en ég er nú ekkert voðalega hjátrúarfull - eða þannig!!!

Og mikið rosalega var gaman í afmælisveislunni og mikið rosalega tókst hún vel. Gestirnir voru frábærir allir sem einn, enda bauð ég bara skemmtilegu og jákvæðu fólki. Barnabörnin fóru á kostum með skemmtiatriði, Ingi bróðir flutti mér ljóð, Jón hélt bráðskemmtilega ræðu með limru-ívafi, fleiri tóku til máls og mærðu mig og svo sungu þær Hanna Björk og Anna Sigga og voru hreint út sagt æðislegar. Endirinn var svo þegar Gospelsystur komu og tróðu upp með meiri söng. Ég var eiginlega klökk allt kvöldið yfir því hvað fólk var gott við mig og er satt að segja farin að trúa því að ég sé alls ekki sem verst. Nú er borðstofuborðið hjá mér þakið gjöfum, skartgripum, vínflöskum, snyrtivörum, sjölum og silkislæðum, svo ekki sé minnst á „skáldagjöfina“ frá vinkonum mínum í Kvennakirkjunni. Frábært að allt tókst svona vel.

En nú er ég sem sagt komin með hálsbólgu, fann fyrir henni þegar ég vaknaði í gær og söngæfingin í gærmorgun hafði alls ekki jákvæð áhrif og svo fór ég að syngja með hópunum við fermingu í Kvennakirkjunni. Það var yndisleg stund eins og alltaf, en hálsinn á mér var búinn að vera þegar ég loks kom heim um fimmleytið og mér leið virkilega illa í gærkvöldi. Var heldur skárri í morgun og hef skánað meira eftir því sem liðið hefur á daginn. Sat við tölvuna og vann þýðingarnar sem ég hafði látið sitja á hakanum svo núna er ég nokkurn veginn á réttu róli. Vona bara að ég verði orðin alveg góð á morgun því það er vissulega margt sem ég þarf að klára.

En nú verð ég aðeins að nöldra. Ég sá auglýsingu í sjónvarpinu þar sem talað er um skynsama hreyfingu. Ef til er skynsöm hreyfing er þá ekki líka til heimsk hreyfing? Hvað er fólk eiginlega að hugsa, þekkir það ekki muninn á orðunum skynsöm og skynsamleg? Ekki veit ég hvað hann faðir minn hefði sagt hefði hann lifað að sjá þetta. Er ekki krafist lágmarkskunnáttu í íslensku af fólki sem vinnur að auglýsingagerð? Ég bara spyr.
Best að hætta núna, ég er farin að nöldra allt of mikið.

sunnudagur, maí 01, 2005

 

Bara að morgundagurinn væri liðinn!!!

Ég fer í prófið klukkan fjögur á morgun og er svo stressuð að ég gæti ælt. Það er varla að ég kunni textana sem ég þarf að syngja, hvað þá að ég geti sungið þá! Ég verð að reyna að róa mig niður, annars fer allt í steik hjá mér.
Við ætluðum í sund í morgun en þá var laugin hérna lokuð af því það er 1. maí (brúðkaupsafmælið okkar) svo við enduðum með því að fara í Laugardalslaugina - það var svo sem ágætt að breyta aðeins til. Ætli ég reyni svo ekki bara að vinna og æfa mig í dag - ekki veitir af á báðum vígstöðvum.

Svo smánöldur í lokin. Það er eins og fólk sé hætt að nota sögnina að kaupa, nú versla allir. Líklega kaupa engir í matinn lengur nema við sérvitringarnir. Og svo er líka eins og fólki þyki óþarfi að beygja orð. „Hér var rætt við Arnór Guðjónssen, faðir Eiðs Smára,“ var sagt í útvarpinu áðan. Ég meina það!

Afmælisundirbúningur hefur setið á hakanum en eftir morgundaginn verður allt sett af stað. Reyndar er ekki um mikinn undirbúning að ræða af minni hálfu, annað fólk sér um þetta allt. Reyndar ætlaði ég að panta blóm áðan hjá Helgu en auðvitað var Blómálfurinn lokaður af því það er 1. maí. Verð að reyna að muna það á morgun.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?