þriðjudagur, nóvember 29, 2005

 

Salve Regina

Salve, Regina, mater miseri cordiæ.
Vita, dulcedo, et spes nostra salve.
Ad te clamamus exsules, filii Hevæ.
Ad te suspiramus, gementes et flentes
in hac la crimarum valle.

Þetta verður sungið í Hallgrímskirkju 14. og 15. des.

mánudagur, nóvember 28, 2005

 

Svo aldeilis hissa

Það er undarlegur andskoti að vera svona orkulaus. Mig vantar gott spark á vissan stað til að rífa mig upp úr þessum fjanda.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

 

Laugavegsrölt

Það viðraði vel á okkur Ellu á Laugaveginum í gær. Byrjuðum á að fara inn í glingurbúð rétt neðan við Snorrabrautina og spurðum hvort þetta væri alveg glæný búð. „Nei,“ sagði afgreiðslustúlkan, „hún hefur verið hér í tvö ár.“ Við afsökuðum okkur með því að gatan hefði svo lengi verið lokuð á þessum kafla. Ekki keypti ég neitt þarna en sá hins vegar skrambi flotta ökklaskó á þrusugóðu verði. Hver veit nema ég líti þangað aftur við tækifæri. Þegar við komum út voru hundaeigendur á Laugavegsgöngu og þarna sá ég einhvern þann flottasta og fallegasta hund sem ég hef séð. Írskan úlfhund, fallega gráan og á stærð við nokkurra vikna folald. Þetta var tík og svo einstaklega blíð og falleg að ég mátti til með að óska eigandanum til hamingju með þennan glæsilega hund. Svo örkuðum við niður eftir og litum inn í hinar og þessar verslanir án þess að hreyfa kortin en sáum auðvitað margt sem hefði verið gaman að fara með heim. Þegar kom að Villtum og vandlátum varð ég auðvitað að líta inn. Verslunin er að hætta og allt selt með 50% afslætti. Ég keypti ljósar hörbuxur sem ég tímdi ekki að kaupa í sumar og yndislegan bol frá Earth Collection. Ég hugsa jafnvel að ég líti inn aftur seinna í vikunni og skoði úrvalið betur, ef það verður þá ekki allt saman selt. Hvað geri ég þegar uppáhaldsbúðinni minni verður lokað?
Við enduðum svo hjá Völu í Marimekko og svo fórum við þrjár út á Jómfrú þar sem við Ella fengum okkur purusteik með tilbehör, en Vala kvaddi eftir eitt hvítvínsglas. Þurfti að rjúka í faðm elskhugans! Gaman hjá henni.

Og ég held að gönguferðin hafi haft góð áhrif á fótinn á mér. Blóðtappinn er næstum horfinn en ég er samt með fjárans verk. Annars var ég búin að lofa að hætta vælinu svo ég segi ekki orð um þetta meir.

föstudagur, nóvember 25, 2005

 

Húrra!!!

Halldór í Hollywood er hrein snilld! Vel skrifað stykki, góður leikur og skemmtileg uppsetning.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

 

Síðsta vesældarbloggið

Þetta verður síðasta vesældarbloggið í bili. Verð bara að láta "æsta aðdáendur" og "nánustu ættingja" vita að þegar ælupestinni lauk og ég var komin á stjá, uppgötvaði ég að ég var helaum í öðrum fætinum og með undarlegt þykkildi undir húðinni. Drattaðist svo til læknis í fyrradag og fékk að vita að þetta væri blóðtappi. En blóðtappi af betri gerðinni, hann situr kyrr á sínum stað og mun eyðast smátt og smátt og er líklega tilkominn af því að frúin fékk hitasótt. Þetta ku taka smátíma og ég fékk einhvern áburð til að nudda inn í húðina, bara verst hvað þetta er svakalega aumt.
En nú lofa ég því að vera ekki með meiri kveinstafi út af heilsufarinu á næstunni. Jólin fara að bresta á og best að njóta skammdegisins og aðventunnar sem best. Mætti á kóræfingu í gær og mæti á aðra í kvöld, samæfingu með Voxinu. Það verða dúndurfínir tónleikar í Hallgrímskirkju 14. og 15. des.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

 

Alls ekki sem verst

Það er bara alls ekki sem verst að synda í nýju lauginni í Salahverfinu í Kópavoginum. Hún er þægilega köld, pottarnir ágætir og klefarnir bara fínir, a.m.k. þegar ekki er troðfullt. Miklu betri en Vesturbæjar- og Laugardalslaugin. Við eigum eftir að prófa gömlu laugina í Kópavoginum og Breiðholtslaugina og svo ákveðum við hvar við látum fyrirberast í vetur.
Fleira var það ekki að svo stöddu.

föstudagur, nóvember 18, 2005

 

Fæst í helstu bókabúðum

Jæja, þá er maður risinn upp úr eymdinni og volæðinu (a.m.k. til hálfs) og farinn að gera eitthvað aftur. Byrjaði á verkefni sem beið og svo eftir hádegið fórum við hjónakornin að koma Rauðhyltingabók í búðir. Nú fæst hún í helstu bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég var að fara í Eymundson í Austurstrætinu sá ég mann sem leit út alveg eins og Harrison Ford en þessi slefaði dálítið þar sem hann gekk upp í vindinn svo ég held að það hafi ekki verið Harrison. Myndi Harrison Ford ganga slefandi um Austurstrætið?

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

 

Hundleiðinlegt

Það er hundleiðinlegt að vera með ælupest og hita. Og ekki bætir úr skák að missa af BPW fundi í Þjóðleihúskjallaranum í gærkvöldi þar sem Tinna Gunnlaugsdóttir ætlaði að segja frá starfsemi Þjóðleikhússins. En í dag virðist mér batnað - vona bara að það reynist rétt.

mánudagur, nóvember 14, 2005

 

Margt er skrýtið í kýrhausnum

Hann er undarlegur þessi heimur. Í Stokkhólmi gengur úlfur sallarólegur um göturnar og danskir hermenn í Kósóvó sofna á kodda sem leikur fyrir þá fuglasöng eða klassíska tónlist.
Hvað skyldi svo vera í fréttum á morgun?

sunnudagur, nóvember 13, 2005

 

Að lokinni veislu

Útgáfuteitið í gærkvöldi var alveg magnað. Troðfullur salur af fólki og þau hjá Veislunni hljóta að kunna sama trikkið og Jesús þegar hann mettaði þúsundin með fimm fiskum - og að vísu líka fáeinum brauðum. Maturinn sem átti að nægja ofan í 60 manns dugði í hátt í 80 maga og allir fengu nægju sína að ég held. Og svo var þetta svo ljómandi gott líka. Fólk kom akandi frá Akureyri og Sauðárkróki til að taka þátt í gleðinni og allir voru í miklu stuði og allir töluðu við alla. Þarna hitti ég frændfólk sem ég hafði aldrei séð áður og fór vel á með okkur. Næsta projekt er svo að skipuleggja Kanadaferð og gera innrás í frændgarðinn þar sumarið 2007. Þetta var tilkynnt í teitinu í gær og tekið með miklum fagnaðarlátum svo ég reikna með að það verði góð þátttaka. Best að hringja strax í Þjóðræknifélagið og fá það í lið með okkur.
Nú er ég að bíða eftir útgáfunefndinni á fund. Við þurfum að skoða uppgjörið og skipuleggja sölu.

föstudagur, nóvember 11, 2005

 

Allt klárt!

Nú er allt klárt fyrir útgáfupartýið á morgun. Við Inda fórum áðan að skoða salinn og hann er alveg nógu stór og nógu mikið af stólum. Fórum í Rekstrarvörur og keyptum plastglös á fæti og síðan í Heiðrúnu og keyptum rauðvín og hvítvín til að hafa á boðstólum ef einhverjir skyldu ekki hafa vitað að allir áttu að taka með sér drykkjarföng. Restinni, ef einhver verður, er svo bara hægt að skila eftir helgina. Við verðum svo að mæta snemma og dekka borð og ganga frá öllu. Vel á minnst, það er ekki nóg af borðhnífum á staðnum, ég verð að taka með mér það sem ég á.
Nánari fréttir síðar.

 

Geimverur

Ég er sannfærð um að hvítklædda heilunarkonan sem var í sjónvarpinu í gærkvöldi er geimvera. Spurningin er bara hvort hún hafi komið ein hingað eða hvort við eigum von á að hvítklæddir DNA-heilarar séu hér í flokkum og bíði eftir tækifæri til að raða okkur saman upp á nýtt.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

 

Í mörgu að snúast

Það er í mörgu að snúast þessa dagana. Væntanlegt útgáfuteiti á laugardaginn er svo vinsælt að við erum búin að loka á frekari þátttöku, allavega í matinn. Þessi 60 manna salur er orðinn fullur og rúmlega það ef fáein ættmenni sem ekki geta ákveðið sig fyrr en á síðustu stundu skjóta upp kollinum, svo við ætlum að reyna að fá stærri sal í sama húsi ef það er mögulegt. Ég var búin að panta mat fyrir 40 manns en breytti pöntuninni allsnarlega í morgun í mat fyrir 60 manns. Ef stóri salurinn reynist bókaður á laugardaginn verðum við bara að reyna að fá aukaborð og stóla, allavega borð til að hafa matinn á því að salurinn tekur 60 manns í sæti við borð. En den tid den sorg. Við Inda fórum í dag og keyptum það sem við þurfum að skaffa svo nú er allt klárt nema að okkur vantar ca. 25 vínglös. Plastglös á fæti eru greinilega ekki á boðstólum í verslunum á þessum árstíma en hugsalega má fá þau í Rekstrarvörum á morgun. Við athugum það.
Það er eiginlega alveg met að fá svona marga í útgáfuteitið og sýnir bara að það er mikill áhugi fyrir Rauðhyltingabók. Ætli þetta verði ekki metsölubók?

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

 

Framtíðaráform

Ég er alvarlega að spá í að flytja til Flórída og gerast fylgdarkona - eða skyldi ég vera orðin of gömul?

 

Fagmennskan í fyrirrúmi

Mér tókst að ljúka þýðingunni á Annie Hall í gærkvöldi, las hana yfir í morgun og sendi frá mér.
Mikið lifandis ósköp er ég fegin. Ég held líka að mér hafi tekist að skila ágætu verki þrátt fyrir hvað þetta var yfirþyrmandi leiðinlegt. Mér tekst yfirleitt að hafa fagmennskuna í fyrirrúmi.
En mín bíður svo sem meira af Woody Allen - den tid den sorg.
Ég ætla að taka pásu það sem eftir er dagsins þar til mál er að mæta á kóræfingu.

mánudagur, nóvember 07, 2005

 

Woody Allen

Eru engin takmörk fyrir því hað Woody Allen getur verið leiðinlegur?

sunnudagur, nóvember 06, 2005

 

Söngur og kvæði

Ekki eru einir tónleikar fyrr búnir en farið er að æfa fyrir þá næstu. Í gærmorgun kl. 9-11 var samæfing með Vox Feminae fyrir aðventutónleikana. Þeir verða fínir eins og venjulega. Við flytjum fyrsta kaflann í Gloriu Vivaldis á aðventunni en ég hlakka til að læra hana alla eins og hún leggur sig. Þær æfingar hefjast svo fyrir alvöru á nýju ári.
Eftir æfinguna rölti ég í rólegheitum heim, var um það bil klukkutíma á leiðinni og hafði rosalega gott af göngunni.

Í dag fórum við svo í Laugardalslaugina eftir hádegið en ekki held ég að við veljum hana sem okkar samastað í vetur. Nú erum við að bíða eftir Inga og Þorbjörgu sem ætla að koma í kaffi og skoða Rauðhyltingabók og svo ætlar Ingi að fara betur yfir Fyllukvæðið með mér. Hann man allt í einu eitthvað sem við höfum víst ekki farið rétt með. Gott mál.

föstudagur, nóvember 04, 2005

 

Rauðhyltingabók

Rauðhyltingabók leit dagsins ljós í gær! Skúli frændi hringdi og sagðist vera kominn með fyrstu eintökin svo mér héldu engin bönd og ég rauk til hans að ná mér í eintak. Bókin er falleg í útliti (klassískt útlit), prentuð á gæðapappír og skemmtilega sett fram. Ég held að við getum verið stolt af afkvæminu og svo verður þetta auðvitað metsölubókin í ár! Einkar hentug til jólagjafa og svo er hún að sjálfsögðu skírnar- og fermingargjöf innan ættarinnar næstu áratugina. Upplagið á að vera frágengið og tilbúið til afhendingar á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku og henni verður síðan auðvitað dreift til ættmenna í útgáfuteitinu þann 12. nóv. Já, við ætlum sem sagt að halda útgáfuteiti - aldarinnar að sjálfsögðu.

Svo langar mig til að benda á tvær greinar í Mogganum í morgun. Vertu sæt stelpa! - viðhorfsgrein eftir Elvu Björk Sverrisdóttur. Frábært að heyra þessi sjónarmið frá ungri konu, ég hélt nefnilega að bara mér hefði brugðið við þessa auglýsingu sem hún vitnar í. Og hin greinin heitir Mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar? og er eftir Bryndísi Víglundsdóttur. Takk, báðar tvær, fyrir tímabærar athugasemdir. Þið eruð frábærar.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

 

Eftir tónleika

Tónleikarnir í gærkvöldi tókust bara vel. Salurinn í Domus Vox var þéttsetinn og mikið klappað og fagnað. Stelpurnar í Vox Junior stóðu sig auðvitað afbragðsvel og ég held að Gospelsystur hafi líka verið virkilega góðar. Og það þarf auðvitað ekki að taka fram að Seth er engu líkur, enda elskum við hann allar. Sem sagt frábært kvöld en ég verð að viðurkenna að ég var dauðþreytt þegar ég kom heim, sem var þó bara rétt um klukkan tíu, en þá var ég líka búin að standa upp á endann og syngja nærri sleitulaust frá klukkan sex.
Í dag lögðum við hjónin leið okkar í Ikea, já, við förum þangar þótt það sé kominn jólasvipur á búðina. Þar festum við kaup á tveimur ljósum í stofuna, vasa undir lucky bambooinn og annan lucky bamboo, skóhorn, fjögur viskastykki og lampa sem kominn er upp í stofunni svo nú get ég hugsanlega setið þar með bók á kvöldin. Allt þetta kostaði rúmar þrjú þúsund krónur.
Að öðru leyti er tíðindalaust á Tjarnarbóli.

P.S. Jón lagaði kvöldmatinn sem var gamaldags snitsel með öllu tilheyrandi. Mjög gott.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?