fimmtudagur, mars 31, 2005

 

Senn kemur vor

Senn kemur vor, sólin vermir spor,
rísa af rökkurblund runnar og blóm.
Fjallalind fríð laus við frost og vetrarhríð,
létt og blítt í lautum hjalar,
í lautum hjalar hún við lágan stein.

Fuglinn minn flaug, frjáls um loftið smaug,
leitaði strandar í lifandi þrá
norður til mín þar sem nætursólin skín.
Kvað hann þá svo kátum rómi,
svo kátum rómi hátt um kvöldin löng.

Þetta syngjum við Gospelsystur stundum og nú má sannarlega segja að senn komi vor því á morgun er 1. apríl. Reyndar er spáð kulda og jafnvel einhverri snjókomu um helgina en það verður bara að hafa það, vorið er samt skammt undan og það fyllir mig bjartsýni. Nú er bara um að gera að bretta upp ermarnar og hella sér af krafti út í það sem gera þarf og koma því í verk, en það er svo sannarlega eitt og annað á þessum bæ. En á næstunni ætla ég bara að hugsa um vinnuna og söngprófið (og auðvitað kóræfingarnar), tíminn á þriðjudaginn féll niður af því Hanna var veik en hún bætir mér það svo upp. Það er bara tæpur mánuður í prófið núna og ég margt eftir að pússa og fínpússa.
Númi minn blessaður fór til Svíþjóðar í gær, þaðan verður svo farið til Finnlands en allt í allt tekur ferðalagið hálfan mánuð. Hann var bæði spenntur og kvíðinn eins og eðlilegt er. Hann sagðist ætla að reyna að senda okkur kort, það kemur í ljós hvort hann gerir það. Reyndar mundi hann eftir að senda okkur kort frá Ameríku sumarið sem hann var þar hjá frænku sinni svo það er aldrei að vita.
Og hvað haldið þið? Ég hef bara ekkert þusað núna. Over and out.

mánudagur, mars 28, 2005

 

Karlinn á vigtinni

Nú hefur karlinn á vigtinni í sundlauginni enn einu sinni verið að fíflast í mér, annað hvort hefur hann snúið henni niður fyrir núllið í fyrradag eða vel upp fyrir það í dag, það þarf sko enginn að segja mér að það sé nokkuð vit í því sem þessi vigt sýnir. Annars veit ég ekki af hverju ég er svona viss um að það sé karl sem sé að hrella mig, gæti það ekki alveg eins verið einhver kerling? Ég er hins vegar svo æfð í að setja upp pókerfeis að ég læt ekkert á mér sjá, hvað sem helv.... vigtin sýnir, brosi bara mínu blíðasta og arka út í laug.
Páskarnir hafa verið mikið góðir, okkur tókst að fara upp á Skaga á skírdag, það var virkilega gaman að sitja í ro og mag með bróður og mágkonu og rifja upp gamla daga og hlæja svolítið. Ferðinni í Bláa lónið var frestað en þess í stað farið í Eden í gær að kaupa ís og skoða sýninguna hjá Ingunni Jensdóttur, sem var bara alveg stórfín. Fastir liðir eins og venjulega um páskana, maður á ekki að breyta út af venjunni bara breytinganna vegna. Ísold og Númi eru hjá okkur núna, þau eru frábær að vanda og lítið fyrir þeim haft. Það er ekki vandamálið á þeim bæ. Gott að eiga svona unglinga.
Verst að á morgun byrjar hversdagsleikinn á ný og ég gerði ekkert af því sem ég hafði heitið að nota páskafríið í, er ekki enn búin að læra allar trillurinar í Plaicir d'amour og Hríslan og lækurinn er bara la la, Ich liebe dich er varla la la enn þá og prófið bara eftir mánuð sem þýðir fjóra tíma með kennara í viðbót (kannski fimm) og líklega fimm með píanistanum. Hamingjan hjálpi mér, ég sem ætla að standa mig svo vel!
Ég nenni ekki að tuða meira núna, veðrið er svo gott og skapið eftir því!

Meira um raunveruleikaþætti
Geðvonda krípið er dottið út í Amazing Race og farið hefur fé betra. Mér finnst bara furðulegt að blessuð konan skuli umbera þetta fól, en hún fullyrti að hún elskaði hann út af lífinu og þótt þau væru að skattyrðast meintu þau ekkert með því!!! Það eru greinilega fleiri en Fischer greyið ekki alveg með fulle fem. Og sú með tattúið í Survivor er dottin út líka svo ég þarf að fara að finna mér annan eftirlætiskeppanda. Stefni að því að gera það í kvöld. Ég hef ekki enn ákveðið með hverjum ég held allra mest í American Idol en það kemur kannski að því. Mér finnst tveir strákanna mjög góðir (og sætir) og líka tvær stelpnanna, það fer að koma í ljós með hverjum ég held, ef ég vel einhvern „eftirlætis“ á annað borð.

föstudagur, mars 25, 2005

 

Ég bara spyr...

Fyrsta spurning dagsins er hvað okkur komi það við að Björgúlfur Thor hafi eignast 16 marka son daginn eftir afmælið sitt. Auðvitað er alltaf stórkostlegur viðburður þegar nýtt líf lítur dagsins ljós, en er fæðing þessa barns nokkuð merkilegri en fæðing annarra barna? Ég vorkenni blessuðum drengnum að fá kastljós fjölmiðlanna á sig strax við fæðingu, það þarf sterk bein til að standa undir slíku og vonandi tekst foreldrunum að gæta þess að hann fái að vaxa úr grasi við eðlilegar aðstæður. Næsta spurning er svo frá hverju slúðurblöðin (slúðurblaðið) hefði að segja ef fólk væri ekki alltaf að skilja, hvernig er hægt að græða endalaust á óhamingju fólks? Ég á á forsíðu Séð og heyrt í gær að Bolli í 17 og Svava væru að skilja, sem vinir auðvitað og gott hjá þeim. En hvað kemur okkur það við, mega þau ekki bara skilja án þess að það verði blaðamatur? Og hefur það mikil áhrif á okkur að vita að Helga og Brynja séu saman í London lausar og liðugar? Vonandi skemmta þær sér bara vel en ég finn ekki að það fullnægi sérstakri þörf hjá mér að vita þetta allt. Það er auðvitað ekki langt síðan fjallað var um skilnað þeirra beggja í slúðurblaðinu og kannski er ætlunin að halda þar úti framhaldssögum um einkalíf fólks, ég bara spyr?
En ekki meira þras í bili. Hafið það gott um páskana og notið dagana til íhugunar um lífið og tilveruna!

 

Bara eitt enn

Nú er Bobby Fischer mættur á svæðið, samur við sig af sjónvarpsfréttunum að dæma. Auðvitað get ég samglaðst manngreyinu að vera laus úr prísundinni og vona bara að hann fari að geta lifað eðlilegu lífi, en ég óttast að það sé til fullmikils mælst af honum og almættinu - það kemur í ljós.
Gleðilega páska

þriðjudagur, mars 22, 2005

 

Með ólíkindum

Veðrið í dag er alveg með ólíkindum, glampandi sól og blíða. Kannski að það sé bara að koma sumar og kuldakastið um daginn hafi verið snemmbúið páskahret. Vonandi. Ég verð einhvern veginn öll betri manneskja þegar veðrið er svona og maður þarf ekki að dúða sig í mörg lög af fötum áður en farið er út. Og hver getur verið með þras og leiðindi í svona sólskini? Ég ætlaði meira að segja að þrasa út af ýmsu en ég held að ég nenni því ekki í dag - og þó.
Nú er Fischer ræfillinn búinn að fá ríkisborgararétt, ég get ekki sagt að ég sé hjartanlega sammála því mér finnst alveg nóg af rugluðu fólki hérna og ég held að mörgum hafi verið neitað um ríkisborgararétt sem frekar hefðu átt skilið að fá að búa hér í ró og næði. Því verður ekki neitað að á sínum tíma braut hann bandarísk lög, enda þótt ég sé alfarið á móti viðskiptabanni, sama gegn hverjum, því viðskiptabann bitnar fyrst og fremst á óbreyttum borgurum og þá helst konum og börnum og þjappar fólki frekar saman að baki stjórnvalda heldur en að það snúist gegn þeim, við sjáum bara að viðskiptabannið á Írak hafði nákvæmlega engin önnur áhrif en að drepa saklaus börn sem ekki fengu nauðsynleg lyf vegna viðskiptabannsins. En nú er ég komin langt frá því sem ég var að segja áðan um Fischer. Kannski læt ég bara svona af því ég hélt eindregið með prúðmenninu Spassky á sínum tíma og þegar ljóst var að Fischer væri orðinn heimsmeistari og ég stóð við bakdyrnar á Laugardagshöllinni þegar hann kom út, gat ég ekki stillt mig um að úa á hann, en fékk ákúrur fyrir frá mínum heittelskaða. Fréttafólk má ekki láta skoðanir í ljósi. Ég var þarna sem sagt í hlutverki hljóðupptökumanns og varð svo fræg að rétt á eftir var hljóðupptakan mín með úinu og öllu saman send út um allan heim! Ég vil bara benda á annað mál, óskylt reyndar, sem ég hef ekki orðið vör við að stórir hópar fólks væru að beita sér mikið í og það er ungi pilturinn sem situr í stofufangelsi í Texas og er stimplaður stórhættulegur kynferðisafbrotamaður, vegna fíflagangs þegar hann var ellefu ára og ekki einu sinni kominn með hvolpavit. Hvernig væri að beita sér fyrir því að hann fái að koma heim? Kannski ætti Skeljungur að bjóðast til að senda þotu eftir honum. Og þetta hlýtur nú að kallast þras - eða hvað?
Þá er best að tuða aðeins um það hve gífurlega það fer í taugarnar á mér að fólk skuli alltaf vera að versla. Það er ekki lengur til siðs að kaupa eitthvað. Í útvarpinu áðan var verið að segja frá einhverri munkareglu og einn ákveðinn munkur hafði það hlutverk að „versla“ mat fyrir regluna. Og sama er að segja um þegar sagt er: „Keyptu þetta.“ Mér dettur í hug að fólk sem segir svona geti tekið upp á að segja: „Hleyptu nú út í búð og keyptu fyrir mig mjólk.“ Og það er þrælfullorðið fólk sem talar svona svo það er kannski ekki furða þótt unga fólkinu verði á í messunni.
En nóg þras í bili. Það eru að koma páskar og ég ætla að reyna að njóta þeirra vel. Kannski að skreppa upp á Skaga, fara í Bláa lónið og jafnvel eitthvað fleira.
Heyrumst!

sunnudagur, mars 20, 2005

 

Frá mörgu að segja

Vá, maður, ég ætlaði aldrei að komast inn á síðuna mína til að skrifa, eitthvað hafði ruglast í systeminu og lykilorðið mitt var ekki tekið gilt, en nú er allt í þessu fína.
Sem sagt, fyrir rúmri viku skruppum við í menningarferð til Akureyrar, sem var býsna skemmtileg en það var bara svo fj. kalt að við vorum minna úti en ætlunin var. Það var auðvitað tekið á móti okkur með kostum og kynjum, wined and dined að sið góðra gestgjafa. Svo var farið í Freyvang á laugardagskvöldið að sjá Taktu lagið Lóa og það var virkilega fín sýning. Daníel fór auðvitað á kostum eins og hans er von og vísa (ég efaðist aldrei um það) og María sem leikur Lóu var alveg hreint frábær, enda vinkona Heiðu kórformanns Gospelsystra og auðvitað á hún ekki nema afbragðssöngfólk að vinum. Sem sagt rosalega fín Akureyrarferð, en Gulla mín blessunin var því miður sárlasin og vonandi höfum við ekki verið til allt of mikilla óþæginda. Ég vona að hún sé búin að ná sér núna, en þegar fólk er veikt fyrir er það svo miklu lengur að jafna sig eftir veikindi, ég þekki það af eigin raun. Dagur og Kári voru auðvitað yndislegir eins og alltaf. Kári var að keppa í Tai kwon do á laugardagsmorguninn, Danni fór auðvitað með hann en þegar við, amman og afinn, mættum á staðinn var drengurinn hættur í keppninni en við fengum samt að sjá hann taka nokkrar laufléttar æfingar og afi tók myndir af honum í búningnum.
Jæja, næsta mál á dagskrá var svo ferming Núma Davíðssonar sem fram fór í gær. Það var afar ánægjulegur dagur, svo yndisleg athöfn og á eftir hittust fjölskylda og vinir í kaffi í Kvennagarði og fermingardrengurinn ljómaði af ánægju eins og sól í heiði. Mér þykir rosalega gaman að standa fyrir svona uppákomum, fílaði mig alveg í botn við að skreyta salinn og dekka borð. Númi hafði óskað eftir að hafa skreytingar í grænu og bláu svo það voru grænar og bláar servíettur og blá og hvít blóm með grænum greinum. Ég var að grínast með það að í mér blundaði stílisti, þetta var svo flott. Ég held satt að segja að svona veislur séu skemmtilegri fyrir fermingarbarnið heldur en stórar veislur með fullt af fólki sem barnið (aðalnúmerið) þekkir varla með nafni hvað þá heldur meira. Ég vil meina að það séu gæðin en ekki magnið sem skipti máli. Ég var auðvitað með fullt af kertum og hafði m.a. gert flotta skreytingu, skál með vatni með skrautsteinum á botninum og á yfirborðinu dóluðu svo átta flotkerti. Ég hafði að vísu ekki áttað mig á að herligheitin voru beint undir reykskynjaranum og þegar líða tók á veisluna upphófst þessi rosalegi hávaði og rauða brunabjallan yfir dyrunum fór á fullt. Það var ekki liðið andartak þegar öryggisvörðurinn var mættur á staðinn og eftir að hafa fullvissað sig um að ekki væri kviknað í var slökkt á hávaðanum. Ég lærði þó af þessu að það gæti kannski verið skynsamlegt að kanna allar aðstæður ef mörg kerti eru logandi í einu. En það verður auðvitað minnisstætt fyrir Núma að brunabjallan fór í gang í fermingarveislunni hans miðri. Eitthvað vorum við rausnarleg með kökurnar því nú er ísskápurinn hjá okkur troðfullur af afgöngum en samt fengu sumir veislugestanna að taka með sér heim kökur á bakka. Þó var þetta sami skammtur og hjá Ísold í fyrra og ekki svo mikið færri gestir núna. Nú er fermingarbarnið á förum til Svíþjóðar á miðvikudaginn og leiðin liggur til Jerna þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma og þar sem systir hans fæddist. Ég vona að það verði ánægjuleg ferð fyrir hann.
Nú er ég komin í páskafrí frá söng og kraftgöngum og ætla að reyna að vera dugleg að vinna þessa daga, ekki veitir af.
Bless í bili. Meira fljótlega.

föstudagur, mars 11, 2005

 

Hamagangur á Hóli

Það er nú meiri hamagangurinn í mér þessa dagana. Á föstudaginn fyrir viku var ég í leikhúsinu að sjá Edith Piaf, í gær fór ég í óperuna að sjá Tosca og annað kvöld er það Taktu lagið Lóa fyrir norðan. Geri aðrir betur, þrisvar sinnum á rúmri viku. Tosca var auðvitað frábær og fátt um það að segja frekar, ég varð sem sagt ekki fyrir vonbrigðum. Uppsetningin er líka stórglæsileg en það var eitt sem fór pínu, pínulítið í taugarnar á mér og það var að aðstoðarmenn Scarpia voru hafðir með sólgleraugu - líklega til að gera þá ógnvænlegri. En fyrst ekkert var gert til að færa verkið nær nútímanum fannst mér þessi sólgleraugu ferlega asnaleg. En nóg um það, þetta var alls ekki nóg til að eyðileggja sýninguna fyrir mér og eiginlega gleymdi ég þessu þegar líða tók á hana.

En nú erum við að fara norður og verðum þar væntanlega í góðu yfirlæti um helgina. Verst að það skuli vera farið að kólna, ég held að það sé spáð 7 stiga frosti þar á morgun. Nú, jæja, þá er bara að taka með sér hlý föt og ekki orð um það meir. Boðskortin í fermingu Núma fóru öll í póst í gær, ekki seinna vænna. Þetta er svo sem ansi afslappað, það eina sem ég hef áhyggjur af á þessu stigi eru kökurnar, en mér dettur ekki í hug að fara að velta mér upp úr einhverjum áhyggjum fyrr en þess er þörf. Ekki var ég svona róleg í tíðinni þegar strákarnir mínir voru að fermast. Fermingu Daníels gleymi ég aldrei þar sem ég lá á sjúkrahúsi dagana sem ég ætlaði að nota til undirbúnings og fékk bæjarleyfi til að fara heim í ferminguna!!! Eins gott að ég skyldi hafa hafa haft vit á því að panta veitingarnar hjá veisluþjónstu - sem var þó fyrst og fremst vegna þess að ég var eitthvað svo slöpp og þreytt að ég treysti mér ekki í að sjá um þær sjálf. En það tókst þó að koma drengnum í kristinna manna tölu, þótt hann sé löngu búinn að segja sig úr þjóðkirkjunni núna og telji sig vera trúleysingja.

Meira um raunveruleikaþætti: Geðvonda krípið er ekki enn fallið úr keppni í Amazing Race, því miður. Veslings konan gat aðeins náð sér niðri á honum þegar hann var að troða vínberin í síðasta þætti, en það var samt bara brot af því sem hún hefur mátt þola. Mér ofbauð samt alveg að heyra hana segja hvað þau væru hamingjusöm og sættust alltaf og kysstust í lok hvers áfanga. Annars er mér löngu farið að skiljast að það er svo ótrúlegur hellingur af undarlegu fólki í veröldinni að það tekur því ekki að hneykslast. Ég er ekki alveg búin að velja mér uppáhaldskeppanda í Survivor enn þá, hallast að því að það verði tattóveraða stelpan með hringina í nefinu, hún er helv... dugleg.

En það er ekki fleira í bili. Næst verður það ferðasaga helgarinnar. Over and out.

þriðjudagur, mars 08, 2005

 

Geggjaður gaur

Var að koma af alveg frábærri kóræfingu. Við fengum gospel og blúsmeistarann Seth Sharp í heimsókn og hann verður með okkur á næstu æfingum til að ná í okkur svolítilli sveiflu. Maðurinn er alger snillingur - fyrir utan að vera líka svolítið augnayndi - og honum tókst meira að segja að fá mig til að finnast gaman að syngja lög sem mér hafa hingað til ekki þótt neitt sérstaklega skemmtileg. Áfram, Seth! Og ég er meira að segja ekki svo voðalega þreytt eins og ég er þó venjulega. Eins og alltaf var ég í söngtíma á undan kóræfingunni og Hanna Björk er bara nokkuð ánægð með mig. Við fórum í Plaisir d'amour og hún stakk upp á að ég syngi það á samsöngnum á mánudaginn svo ætli ég láti ekki slag standa þótt ég sé enn í vandræðum með síðustu trilluna. Það rak líka happ á fjörur mínar á æfingunni, ein kórsystir var búin að kaupa miða á Toscu á fimmtudaginn en eitthvað kom upp á hjá henni svo hún kemst ekki og bauð mér að fá miðann og ég var ekki lengi að segja já. Svona getur maður stundum verið heppinn!
En nú þarf ég að fara að sinna öðru svo þetta verður ekki lengra hjá mér í bili.

P.S. Mikið er annars dásamlegt þegar veðrið er svona gott og daginn er farið að lengja. Það var meira að segja ekki orðið alveg dimmt þegar æfingunni lauk klukkan rúmlega átta.

laugardagur, mars 05, 2005

 

Mikið er gott að vera heima!

Mikið er gott að vera heima í ró og næði. Laugardagsmorgnarnir þegar bóndinn er í vatnslitaklúbbnum eru mér afar dýrmætir, kyrrðin hérna er svo dásamleg. Nú má ekki skilja þetta sem svo að eiginmaðurinn sé óheflað rustamenni með hávaða og hamagang, alls ekki. Hann er ákaflega ljúfur maður sem lagar iðulega handa mér kaffi á morgnana áður en hann vekur mig. Nei, það er bara eitthvað við einveruna sem ég kann svo vel við. Ég gæti held ég hugsað mér að leigja mér bústað uppi í sveit og vera þar ein í viku. Við sjáum nú til.

Það hefur verið brjálað að gera hjá mér, fimmtudagsfundurinn var afbragðsskemmtilegur. Þetta fólk er svo skemmtilegt og létt í lund og svo spillir auðvitað ekki fyrir hvað þetta eru allt saman bráðgáfaðir einstaklingar! Nema hvað? Mikið rosalega er ég heppin að eiga svona frábæra stórfjölskyldu. Rauðholtskynið stendur fyrir sínu. Áfram Rauðhyltingar! Reyndar var ákveðið að bókin komi ekki út fyrr en í haust í stað þess að reyna við sumarið. Það er enn eftir að ganga frá dálitlu af efni, ég þarf til dæmis að bæta því við frásögnina um Jón frænda þegar ég var líltil og lá í flensu og hann gaf mér rommpúnsið! Það svínvirkaði auðvitað, ég var komin á fætur daginn eftir. Eitthvað taldi fólkið þó að þarna væri kannski komin ástæða þess hvað mér finnst gaman að fá mér í tána öðru hvoru! Ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára þegar þetta var. Svo var ég beðin að skrifa eitthvað smávegis um Sæbjörgu - það gæti verið sagan um það þegar karlinn bauð henni í leikhúsið og sitthvað fleira frá samveru okkar þegar ég bjó hjá henni meðan ég var í Kvennó.

Svo erum við að fara til Akureyrar um næstu helgi, bókuðum flugið í gær og áttum fyrir því í punktum. Maður má auðvitað til að sjá yngri soninn í Freyvangsleikhúsinu - hann fær þessa glimrandi fínu krítik. „...Daníel Freyr Jónsson náði að verða litríkur sem kærastinn útsmogni.“
Flott hjá mínum! Það verður alveg þrælgaman að bregða sér norður og hitta fólkið, ég er strax farin að hlakka til.

Við Ella fórum að sjá Edith Piaf í gærkvöldi, það var frábær sýning og Brynhildur Guðjónsdóttir breytist hreint og beint í Edith Piaf á sviðinu. Alveg magnað. Það fór samt í taugarnar á mér að sumir söngtextarnir voru á íslensku og aðrir á frönsku, mér fannst það hálfklúðurslegt. Ég hefði einfaldlega viljað hafa allt sungið á frönsku, þetta eru allt lög sem maður þekkir og hefur raulað með. Sumt sem verið var að heimfæra upp á íslenskar aðstæður hljómaði hreint og beint kjánalega svo ekki sé minnst á að áherslan gat ekki alltaf lent á fyrsta atkvæði. En auðvitað er þetta bara smáræði, í heild var þetta mögnuð sýning og stykkið hefði ekki verið sýnt 57 sinnum ef ekki væri eitthvað varið í það!

Það er spurning hvort við förum í strandgönguna í fyrramálið - mig dauðlangar en ég er alveg dauðþreytt svo það fer líklega eftir því hvernig dagurinn í dag verður. Annað kvöld förum við svo á æskulýðssamkomu í Neskirkju til að sjá leikrit sem Ísold samdi, leikstýrir og leikur í. Geri aðrir betur! Nú er komið á hreint að Númi fermist 19. mars svo það er eins gott að byrja undirbúninginn. Eftir samkomuna á sunnudagskvöldið verður fjölskylduráðstefna til að ákveða fyrirkomulagið. Ég er búin að fá salinn eins og í fyrra og ætlunin er að hafa þessa fermingarveislu nákvæmlega eins og þegar Ísold fermdist.

Nóg í bil. Over and out.

miðvikudagur, mars 02, 2005

 

Langt síðan síðast

Það er orðið ansi langt síðan ég tjáði mig síðast, sem stafar fyrst of fremst af því að ég hef verið að gera allan fj... annað. Helgin var alveg frábær, Ísold og Númi voru hjá okkur af því foreldrarnir voru bæði í Danmörku, auðvitað þó ekki saman. Það er orðið ansi langt síðan ég hef verið með unglinga á heimilinu en þetta tókst nú samt prýðilega - enda eru þetta svo ljúfir og góðir krakkar. Við fórum í Bláa lónið á sunnudeginum og ég held að þeim hafi bara fundist ágætt að fara með ömmu og afa. Við hjónin vorum nefnilega búin að ákveða að næst þegar það yrði gott veður á sunnudegi myndum við skella okkur og unglingarnir voru alveg tilbúnir að koma með svo þetta varð hin ágætasta fjölskylduferð. Þau fóru svo til mömmu sinnar í gær eftir fjögurra nátta gistingu hér á Tjarnarbóli. Það eina sem mér fannst erfitt var að vakna fyrir allar aldir, þ.e. laust fyrir klukkan 7 til að byrja á að koma Núma af stað. Hann þurfti að taka strætó 20 mín. yfir 7 til að ná skólarútunni við Efstaleiti klukkan 8. Hann gat tekið sama strætó og hann er vanur, bara nokkrum mínútum fyrr. Ísold vakti ég svo þegar hann var farinn. Ég verð að játa að báða morgnana skreið ég upp í aftur og lagði mig þegar þau voru farin. Á morgun verður svo Rauðhyltingagengið á fundi hjá mér í sambandi við væntanlega bók sem á að koma út í sumar. Ég á von á 10 manns svo það er víst best að skella í eina eða tvær kökur í fyrramálið til að bjóða liðinu. Og - ég þarf líka að setja saman dagskrá fyrir fundinn, ekki má það gleymast. Annars finnst okkur svo gaman að hittast að yfirleitt erum við farin að tala út um holt og móa og gleymum alveg aðalatriðinu. Þetta hefur samt gengið það vel að nú erum við farin að sjá fyrir endann á verkinu. Á föstudaginn fer ég svo að sjá Edith Piaf, pantaði miðana strax í janúar því það er alltaf uppselt á þetta stykki, enda hef ég heyrt að það sé alveg frábært.

Göngufréttir
Haldið þið að við höfum ekki skráð okkur (án skuldbindinga þó) í Hornstrandaferðina í sumar. Það verður væntanlega farið um miðjan júlí, dvalið í Hornvík og farið í gönguferðir þaðan. Ég held að það verði alveg svakalega gaman og vona innilega að við getum farið. Síðasta helgin í júlí er auðvitað frátekin eins og alltaf en það er nánast víst að þessi ferð verður um miðjan mánuðinn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?