mánudagur, október 31, 2005
Ekki svo slæmt líf
Það eru búin að vera mikil rólegheit hér á Tjarnarbóli. Reyndar er það bara alveg ljómandi gott. Á laugardaginn leit Þorri inn í kaffi og var kyrrsettur hér í kvöldmat, huggulegheit og spjall. Eiginmaðurinn eldaði þessar líka góðu kjúklingabringur fylltar með feta-osti og ólífum og alveg rosalega góðri sósu - namm. Þetta var sem sagt alveg indæll dagur og kvöld og þrátt fyrir allt þetta náðum við líka að þrífa sameignina og ég kláraði þáttinn sem ég var byrjuð á. Duglegir krakkar við hjónakornin. Á sunnudaginn var farið í Sundlaug Seltjarnarness, í síðasta sinn í bili því hún verður lokuð til 1. apríl vegna breytinga og viðbygginga. En þá verður hún líka flott í vor þegar hún verður opnuð aftur. Eftir hádegið fór sunnudagurinn bara í vinnu og það var býsna gott að horfa á ísraelska kvikmynd á Ruv um kvöldið. Yfirleitt horfi ég ekki á kvikmyndir í sjónvarpi en það var ágætt að sjá eitthvað annað en skothríð og hasar. Annars er ég viss um að margir hafa blótað henni í sand og ösku. Það er eins og sumum þyki ekkert varið í bíómyndir nema það sé nóg af blóði og óþverra. Þessi ísraelska mynd var svo sem ljót í sjálfu sér en það var samt einhvern veginn öðruvísi ljótleiki.
föstudagur, október 28, 2005
Af veðri
Ég verð að viðurkenna að mér þykir lúmskt gaman í svona veðri. Annars er svo skrýtið að það er alveg hætt að vera snjókoma, éljagangur, bylur, ofankoma, snjóhraglandi, hríð og ég tala nú ekki um glórulaus stórhríð og blindöskubylur, nú er allt þetta kallað snjóstormur. Erum við nokkuð að tapa uppruna okkar?
miðvikudagur, október 26, 2005
Verkfall eða frí?
Mánudagurinn tókst ótrúlega vel. Fyrir 30 árum var ég á móti því að kalla daginn kvennafrídag og ég er enn á móti því. Ég kalla það ekki frí að leggja niður störf til að mótmæla misrétti. Á mánudaginn lést líka Rosa Parks, hún vakti athygli um allan heim þegar hún mótmælti því misrétti sem bandarískir svertingjar máttu sæta og má segja að viðbrögð hennar hafi mótað upphaf réttindabaráttu þeirra. Ég er ekki að segja að staða okkar, íslenskra kvenna, sé neitt lík stöðu bandarískra svertingjakvenna fyrir 50 árum, sem betur fer er ólíku saman að jafna, en við verðum samt að berjast þar til jafnrétti er náð. Mér fannst okkur líka vanta einhverja Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur á fundinn á mánudaginn, konu sem talaði tæpitungulaust á máli sem allir skildu, konur sem karlar.
Og skömm sé stráknum sem ásamt vinum sínum, bankastrákunum, tókst að bola Ragnhildi Geirsdóttur úr forstjórastóli FL Group - miður geðsleg áminning um að íslenskar konur megi ekki sofna á verðinum!
Og skömm sé stráknum sem ásamt vinum sínum, bankastrákunum, tókst að bola Ragnhildi Geirsdóttur úr forstjórastóli FL Group - miður geðsleg áminning um að íslenskar konur megi ekki sofna á verðinum!
föstudagur, október 21, 2005
Fengitími
Mig minnir að í gamla daga hafi fengitími sauðfjárins verið seinnipartinn í desember en það er augljóst að hjá mannfólkinu er hleypt til á haustin samkvæmt tveimur sjónvarpsþáttum sem ég horfði á í gærkvöldi. Mér fannst ég ekki geta annað en séð einn þátt af Íslenska bakkalárnum en verð að viðurkenna að ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta að sjá íslensk og bráðmyndarleg ungmenni í þessari niðurlægingu. Og það var athyglisvert að þau „deituðu“ en fóru ekki á stefnumót, skítt með þótt þau segðu „mér langar,“ það er alltént rammíslensk þágufallssýki. Svo horfði ég á fyrstu 15 mínúturnar af Ástarfleyinu (sem heitir þó allavega íslensku nafni) og sýndist að sá þáttur myndi vera illskárri. En fátt er svo með öllu illt að ekki boðið nokkuð gott, ég veit á hvaða þætti ég mun alls ekki horfa og það sparar mikinn tíma sem hægt er að nota í annað.
Ég ætlaði ,að segja eitthvað fleira en hef steingleymt hvað það var - skyldi þetta vera aldurinn? Nei, nei, auðvitað ekki, bara annríki.
Ég ætlaði ,að segja eitthvað fleira en hef steingleymt hvað það var - skyldi þetta vera aldurinn? Nei, nei, auðvitað ekki, bara annríki.
mánudagur, október 17, 2005
Hörkukerling
Stundum er ég svo dugleg að ég kem sjálfri mér jafnvel á óvart.
Hvar ætli þetta endi?
Hvar ætli þetta endi?
laugardagur, október 15, 2005
Er ég svona?
Ég tók eitt af þessum persónuleikaprófum á Netinu áðan og þetta er niðurstaðan. Ég verð að játa að ég er bara býsna ánægð ef ég er svona. Þetta telst víst B+ manngerð enda held ég líka að algengasta einkunnin mín í MH hafi verið B+.
Ég hef alltaf passað mig á að vera ekki of fullkomin!
You're a pro at going with the flow.
You love to kick back and take in everything life has to offer.
A total joy to be around, people crave your stability.
While you're totally laid back, you can have bouts of hyperactivity.
Get into a project you love, and you won't stop until it's done.
You're passionate - just selective about your passions.
Do'>http://www.blogthings.com/typeaquiz/">
Ég hef alltaf passað mig á að vera ekki of fullkomin!
You're a pro at going with the flow.
You love to kick back and take in everything life has to offer.
A total joy to be around, people crave your stability.
While you're totally laid back, you can have bouts of hyperactivity.
Get into a project you love, and you won't stop until it's done.
You're passionate - just selective about your passions.
Do'>http://www.blogthings.com/typeaquiz/">
fimmtudagur, október 13, 2005
Mikill er foringinn
Eiginlega dauðbrá mér í morgun. Þegar ég opnaði Moggann hélt ég fyrst að Davíð Oddsson væri dáinn, en svo sá ég hvers kyns var. Annars hélt ég að enginn fengi gefinn út svona mærðarlegan blaðauka nema hann væri dáinn og aukinheldur man ég ekki betur en að ritstjóri Moggans hafí nýverið lýst því yfir að búið væri að skera á öll tengsl blaðsins við ákveðinn stjórnmálaflokk. Hljóta nú ekki allir stjórnmálaforingjar að fá svona blaðauka í Mogganum? Davíð er auðvitað sprelllifandi og unir væntanlega hag sínum vel í Seðlabankanum. Hins vegar er hann greinilega enn við sama heygarðshornið í ákveðnu máli, ef dæma má af ræðunni hans á landsfundinum sem ég heyrði brot úr áðan. Hann er sem sagt á móti auðhringum og einokun og með heilbrigðri samkeppni. Ég man samt ekki til þess að hann hafi talað mikið um Eimskip og Flugleiðir sem einokunarfyrirtæki á sínum tíma og ég man þá tíð að einstaklingar og fyrirtæki úr ferðaþjónustu og viðskiptalífi þurftu á sínum tíma að taka saman höndum til að reyna að bjarga Arnarflugi sáluga til að tryggja Flugleiðum ákveðið aðhald - og heilbrigða samkeppni. Hvar var Davíð þá?
Bodysnatchers
Ég datt inn í frábæran, breskan sjónvarpsþátt í gærkvöldi - Grumpy Old Women. Alveg skildi ég allt sem þessar konur voru að tala um, sérstaklega þetta með að vakna upp einn daginn og átta sig á að bodisnatcher hafi stolið af manni líkamanum og skilið eftir annan gersamlega úr sér genginn.
Í gær hefði faðir minn átt afmæli, en hann var fæddur 1894, og í gær voru líka 24 ár síðan hann dó. Samt kemur enn þá fyrir að ég sakna hans.
Í gær hefði faðir minn átt afmæli, en hann var fæddur 1894, og í gær voru líka 24 ár síðan hann dó. Samt kemur enn þá fyrir að ég sakna hans.
mánudagur, október 10, 2005
Meðaumkun
Ég get ekki að því gert að ég vorkenni Jónínu Ben - og ekki bara fyrir skelfilegan fatasmekk.
Sálubót
Það er bæði sálaryngjandi og mannbætandi að fá tækifæri til að eyða heilli helgi við að skrafa, skeggræða og skála við æskuvinkonur sínar. Heppin er ég.
föstudagur, október 07, 2005
Ljótt að hlæja að öðrum
Súsanna Svavarsdóttir hlær að Amish-fólkinu. Sjálf hlæ ég að Súsönnu Svavarsdóttur. Annars eru sjónarmið hennar (og Björns Bjarnasonar) miklu fremur grátleg.
miðvikudagur, október 05, 2005
Hvað er að þessum mönnum?
Áðan heyrði ég í sjónvarpinu að forsætisráðherra sagði kaupgetuna hafa aukist um 60% á undanförnum tíu árum. Það kemur ekki heim og saman við mína reynslu því kaupgeta mín hefur svo sannarlega dregist saman á þessum árum. Spurning hvort ráðherrann kippi því í liðinn fyrir mig, þetta hljóta að vera einhver mistök. Ég ætti kannski að tala við Dóra.
Ekki fleira að sinni.
Ekki fleira að sinni.
Tíðindalítið á Tjarnarbóli
Það er tíðindalítið á Tjarnarbólinu í dag en betri eru lítil tíðindi en slæm tíðindi. Í gær átti eiginmaðurinn afmæli og í tilefni af því fengum við hjónakornin okkur að borða á Hereford þegar ég var búin á kóræfingunni. Fengum dýrindis nautalundir með bökuðum kartöflum og grænmeti og rauðvín með. Þetta smakkaðist alveg prýðilega og þegar við komum heim fengum við eftirréttinn, ostaköku og aðeins meira rauðvín - ekki mikið samt. Í dag hef ég svo bara verið að vinna, ekki veitir af þar sem helgin fer bara í skemmtanir og vitleysu. Við bekkjarsysturnar úr 4-Z ætlum að eyða helginni í Hveragerði, borða góðan mat, spjalla og skemmta okkur. Við höfum fengið þrjá sumarbústaði hjá einhverri konu þar og getum hagað okkur eins og við viljum, en auðvitað högum við okkur vel eins og sönnum Kvennaskólapíum sæmir. Hver veit nema við skoðum eitthvað merkilegt á Suðurlandsundirlendinu líka? Það verður ekki leiðinlegt.
Ég hef verið að bæta fleiri tenglum á síðuna mína en það klikkar alltaf eitthvað. Ég vona að fólk virði mér það til vorkunnar. Fæ vonandi annan hvorn soninn til að hjálpa mér að lagfæra þetta.
Ég hef verið að bæta fleiri tenglum á síðuna mína en það klikkar alltaf eitthvað. Ég vona að fólk virði mér það til vorkunnar. Fæ vonandi annan hvorn soninn til að hjálpa mér að lagfæra þetta.
laugardagur, október 01, 2005
Bústur áugi
Fyrir nokkrum dögum heyrði ég í útvarpinu viðtal við ungan mann sem staddur var á Spáni og hjó eftir því að hann sagðist hafa verið „bústur“ á Spáni í nokkur ár en væri nú á heimleið. Fyrst hélt ég að mér hefði misheyrst og pilturinn væri einfaldlega bústinn á Spáni - enda hægt að verða bústinn af matreiðslu Spánverja. En svo var þetta endurtekið og þá rann upp fyrir mér ljós, viðmælandinn átti við að hann hefði verið búsettur á Spáni.
Daginn eftir heyrði ég annað viðtal við ungan mann sem ætlar sér stóra hluti innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að ungt fólk hefði lítinn „áuga“ á stjórnmálum. Það hlýtur því að vera ágætt að hann hefur ug á því að koma sér áfram í flokknum.
Ekki fleira að sinni.
Daginn eftir heyrði ég annað viðtal við ungan mann sem ætlar sér stóra hluti innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að ungt fólk hefði lítinn „áuga“ á stjórnmálum. Það hlýtur því að vera ágætt að hann hefur ug á því að koma sér áfram í flokknum.
Ekki fleira að sinni.