föstudagur, janúar 30, 2009

 

Sami grautur, kannski aðeins saltari, í nýrri skál?

Mig minnti að Ingibjörg Sólrún hefði sagst ætla að draga sig í hlé svo að ný forysta gæti tekið við en nú virðist sem bæði hún og Össur ætli að sitja áfram í sínum stólum. Og mér finnst nánast fráránlegt að VG tefli Kolbrúnu Halldórsdóttur fram sem umhverfisráðherra. Það er þá eins gott að engir ísbirnir gangi á land meðan hún vermir sætið því hún myndi sennilega rjúka norður með grátstafinn í kverkunum til að klappa ræflunum!
Ég bíð bara eftir einhverju nýju framboði sem vit er í til að geta nýtt atkvæðið mitt í vor.

mánudagur, janúar 26, 2009

 

Ertu bitur, Saddam?

Skelfing finnst mér asnalegt þegar fréttakonan spyr ráðherra og þingmenn hinnar föllnu ríkisstjórnar hvort þetta séu vonbrigði. Minnir mig á grínið að ef Hallur Hallson hefði verið staddur í Írak þegar Saddam Hussein fannst hefði hann troðið sér ofan í holuna til hans með míkrafóninn og spurt: Ertu bitur, Saddam?

 

Draumur sem breyttist í martröð

Mig dreymdi undarlegan draum í nótt. Mér fannst að ríkisstjórnin væri fallin, ný stjórn tekin við og búið væri að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum. En draumurinn breyttist brátt í martröð því Davíð hélt blaðamannafund og sagðist vera á leið í pólitíkina aftur og væri sestur við stjórnvölinn í Sjálfstæðisflokknum. Umhverfis Davíð á fundinum stóð hópur alvarlegra, jakkafataklæddra karlmanna sem brostu óhugnanlegu trúðsbrosi og svo breyttust andlitin á þeim öllum í andlit Davíðs með þessu sama, óhugnanlega brosi og þá hrökk ég upp í skelfingu.
Ég ætla bara rétt að vona að ég sé ekki berdreymin.
Annað var það ekki í bili, ég gleðst auðvitað yfir því að stjórnarsamstarfinu sé lokið en dag skal að kveldi lofa.

laugardagur, janúar 24, 2009

 

Meiri mótmæli

Ég var með skilafrest í gær og gat því miður ekkert mætt í mótmælin í vikunni, sem ég hefði þó gjarnan viljað. En ætli maður mæti ekki á Austurvöll á eftir, hugsanlega með appeslínugula skaftpottinn og sleif. Mér sýnist að það ætli að viðra vel til mótmæla.
Og mikið er ég fegin að aðalbankastjóri Seðlabankans skuli vera hættur að láta í sér heyra.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

 

Loksins, loksins!

Loksins eru Íslendingar hættir að láta bjóða sér allt þegjandi og hljóðalaust og þá er ekki að sökum að spyrja að mótmælendur eru kallaðir skríll og uppivöðsluseggir. Fólk er nefnilega að átta sig á því að við höfum ekki búið við lýðræði undanfarna áratugi, við höfum búið við flokksræði. Flokkarnir sem verið hafa í ríkisstjórn hafa ráðið einu og öllu eins og sést best í embættis- og stöðuveitingum undanfarinna ára, svo ekki sé minnst á einkavinavæðinguna. Að mótmæla á friðsamlegan hátt eins og gert hefur verið síðan í haust hefur greinilega ekkert að segja, þess vegna er ekki um annað að ræða en að grípa til frekari aðgerða, það er ekki eins og fólk sé að mótmæla að gamni sínu. Því miður gat ég aðeins verið á Austurvelli stutta stund í gær og í dag verð ég að sitja við tölvuna ef mér á að takast að skila næsta verki af mér í tæka tíð. En áfram mótmælendur!

mánudagur, janúar 19, 2009

 

Langa pönk?

Þann 15. janúar um kvöldmatarleytið átti sá merkilegi viðburður sér stað að við hjónin urðum langamma og langafi. Hulda, sonardóttir okkar, eignaðist undurfallegan dreng sem var 14 merkur og 51 sentímetri. Við hjónakornin erum svo stolt og ánægð að við höfum varla komið við jörðina síðan þetta gerðist. Sá litli flýtti sér svolítið í heiminn, hann átti ekki að koma fyrr en 29. jan. en ákvað svo bara að vera ekkert að draga þetta á langinn. Reyndar er 15. janúar dagurinn sem afi hans, sonur minn, átti að fæðast en sá var líka að flýta sér í heiminn, fæddist 5. jan. og rétt náði þannig að vera jólabarn. En mér finnst undarlegt að konur séu sendar heim af fæðingardeildinni eftir sólarhring. Við fórum í heimsókn til litlu fjölskyldunnar á sunnudaginn og mikið lifandis ósköp var unga móðirin þreytt. Prinsinn er samt afskaplega rólegur og sefur vel en að vera send heim svona fljótt finnst mér bara ljótt, mér þætti allt í lagi að konur fengju að hvíla sig svolítið eftir fæðinguna. Reyndar var mér sagt að oft væru konur sem fæddu að morgni sendar heim sama kvöld - hvað á svoleiðis eiginlega að þýða?
En sem sagt þegar Hulda fæddist var ég kölluð amma pönk (var víst nýbúin að fara í svolítið pönkaða klippingu) en ég held að ég verði nú ekki kölluð langa pönk núna. Ætli ég verði ekki bara kölluð Sigga langa. Einn forfaðir mannsins míns var kallaður Jón langi og það er við hæfi að eiginmaðurinn taki það kenninafn upp.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

 

Morgunpanik og skammarbréf

Ég vissi að ég ætti að mæta á Göngudeild sykursjúkra 15. jan klukkan 08.30, þ.e. föstudaginn 15. jan. eins og það hafði stimplast inn í kollinn á mér. Hafði því engar áhyggjur þegar ég fór að sofa í gærkvöldi yfir að þurfa að vakna snemma og datt auðvitað ekki í hug að stilla vekjaraklukkuna. En svo gerðist eitthvað í svefnrofunum í morgun, eitthvað sem sagði: Bíðum við, var ekki sá 14. í gær? Ég á örugglega að vera á göngudeildinni á föstudegi, en ég skrifaði samt hjá mér 15. janúar. Þegar þessar vangaveltur á milli svefns og vöku höfðu staðið svolitla stund ákvað ég að rífa mig upp og ganga úr skugga um þetta. Jú, ég staulaðist fram og leit á endurkomukortið. Á því var reyndar enginn vikudagur en þar stóð með stórum stöfum 15. jan. klukkan 08.30. Svo varð mér litið á klukkuna, hún var 08.20. Og þar með hófst mikið írafár og fum. Eiginmaðurinn rauk til og lagaði kaffi og þegar ég loks hafði mælt blóðsykurinn, sprautað mig og klætt mig var hann líka búinn að smyrja handa mér brauðsneið með osti sem ég gleypti svo í mig með hálfum kaffibolla áður en ég rauk út. Sem betur fer var ekki mikil umferð og ég var mætt á göngudeildina klukkan níu, hálftíma of sein. En stundum er eins og heppnin elti mig, þessi smáheppni sem samanlagt þegar ævin er á enda er miklu betri en stór happdrættisvinningur sem ég myndi hvort sem er bara eyða í vitleysu. Það var nefnilega einhver starfsmannafundur í gangi sem var að ljúka þegar ég mætti. Ég komst þess vegna næstum strax að og var komin heim aftur upp úr tíu.
Svo skrifuðum við hjónin karlfjandanum, óþokkanum Símoni Peres í Ísrael harðorð bréf sem ég fór með í póst út á Eiðistorg seinnipartinn í dag. Þann póstkostnað, heilar 90 krónur pr. stykkið eða 180 krónur fyrir tvö bréf, borgaði ég með glöðu geði. Ekki að ég haldi að karlinn lesi þetta en það getur kannski gert starfsfólkinu sem lætur sig hafa það að vinna fyrir hann lífið leitt og það í staðinn gert þrælmenninu lífið leitt. Ég skil ekki af hverju við höfum ekki slitið stjórnmálasambandi við ísraelsku barnamorðingjana. Þurfum við virkilega enn þá að skríða fyrir Könunum? Hafa þeir ekki fyrir löngu gefið skít í okkur?
Og að lokum fer ég fram á að þau sem ráða hér á landi verði annað hvort sett af eða send í geðrannsókn ásamt aðalbankastjóra Seðlabankans.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

 

Að lifa af vöxtunum

Bjarni Ármannsson skilaði 370 milljónum sem hann fékk í starfslokasamning þegar hann hætti hjá Glitni vorið 2007. Hvað með vextina af upphæðinni? Við hjónin gætum lifað helvíti góðu lífi af vöxtunum af 370 milljónum þennan tíma.
Annað var það ekki að sinni.

P.S. Nú hefur ekkert heyrst frá aðalbankastjóra Seðlabankans í nokkurn tíma.
Ætli hann hafi verið sendur í geðrannsókn?

sunnudagur, janúar 04, 2009

 

Helvítis fokking fokk!

Gleðilegt ár, ágætu landsmenn, nær og fjær.
Nú er komið nýtt ár en lítið bólar á breytingum á ástandinu á Fróni. Á Tjarnarbóli voru áramótin einkar hefðbundin, frumburðurinn mætti í mat með fjölskylduna, ég eldaði afbragðsgóða hreindýrasteik sem tengdadóttirinn útvegaði, en því miður tókst mér að hafa hana, þ.e. steikina, ekki tengdadótturina, of lengi í ofninum þannig að hún gegnumsteiktist. Ekki að hún yrði samt vitund þurr, hún var einkar meir og bragðaðist vel. Svo var horft á skaupið sem var eitt það allra besta sem ég hef séð enda nógur fíflagangurinn í þjóðfélaginu til að gera grín að. Mikið hefur mér oft liðið eins og mótmælandanum sem Jón Gnarr lék, bara helvítis fokking fokk, og sömuleiðis eins og konunni sem var að leita að þvottaefninu í stórmarkaðinum. Næst þegar ég verð spurð að einhverju sem ég ekki veit mun ég svara: "Ég held að það sé ekki tímabært að gefa upplýsingar um það mál að svo stöddu." Reyndar mætti ég ekki í mótmælin í gær og býst ekki við að mæta oftar, mér finnst nefnilega afar sorglegt að börn skuli vera látin halda kreppuræður á fjöldafundi. Það er ljótt að íþyngja börnum með tali um að þau skuldi svo og svo margar milljónir sem þau verði alla ævina að borga. Leyfum börnunum frekar að vera börn, allt í lagi að segja þeim að nú þurfi spara og kannski ekki hægt að leyfa sér eins mikið og áður, en átta ára börn hafa ekki (sem betur fer) nægan þroska til að skilja ástandið. Ef foreldrar mínir hefðu sagt mér þegar ég var átta ára að nú skuldaði ég allt í einu ellefu milljónir held ég að ég hefði ekki getað sofið fyrir áhyggjum.
Nú verður bara spennandi að sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér, mér sýnist allt benda til að það verði kosningar með vorinu. Ég er auðvitað engu nær um hvað ég myndi kjósa, ég vil fá nýtt fólk í landsmálin.
Annað var það ekki að svo stöddu en auk þess legg ég til að ákveðinn seðlabankastjóri (ásamt ritstjóra DV) verði sendur í ítarlega geðrannsókn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?