föstudagur, júlí 29, 2005

 

Undarlegur andskoti!

Ég þurfti að skreppa inn í Skeifu núna rétt áðan og lenti á Miklubrautinni einmitt þegar vörubílstjórarnir voru að aka þar um. Ég verð að segja að það voru ekki mikil vandræði að vera samferða þeim þarna, þeir óku bara á hægri akreininni og reyndu greinilega að valda ekki miklum töfum (fyrr en auðvitað upp við Rauðavatn). En svo þegar ég var á leiðinni heim lenti ég á eftir bílalest sem ók á 20 á Nesveginum. Hver andsk... er að fólki sem gerir þetta? Er ekki Nesvegurinn það sem nú til dags kallast stofnbraut? Auðvitað er allt í lagi að fara með gát, en að silast svona áfram er gersamlega ofvaxið mínum skilningi. Og maður tekur ekki fram úr 5 eða 6 bílum í lest þegar það er stöðug umferð á móti! Jæja, ég hef ekki nöldrað í margar vikur en nú einfaldlega varð ég! Að svo búnu vona ég að allir gangi nú hægt um gleðinnar dyr um helgina.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

 

Gaman, gaman er...

Gaman, gaman er í góðu veðri að leika sér, segir í einhverju kvæði sem ég kunni í gamla daga og það má með sanni segja að nú er gaman að leika sér. Þegar líða tók á daginn héldumst við gamla settið ekki lengur inni fyrir framan tölvurnar, en ákváðum að fara upp í Heiðmörk í sveppatínslu. Þegar þangað var komið áttuðum við okkur auðvitað á að maður tínir ekki sveppi í svona veðri, maður bíður eftir rigningu + uppstyttu til að gera það. En fyrst við vorum nú komin á staðinn lituðumst við svolítið um og árangurinn varð fáeinir sveppir sem brögðuðust vel smjörsteiktir með kvöldmatnum. Og auðvitað fórum við í hressandi gönguferð, enga kraftgöngu samt, og létum sólina baka okkur. Á leiðinni heim keyptum við í matinn og splæstum líka í DV og viti menn, Eiríkur Jónsson stóð við orð sín, allt alveg rétt eftir mér haft! Gott hjá þér, Eiríkur.
Annars var það ekki meira að sinni.

P.S. Í kvöld grillaði eiginmaðurinn handa okkur léttreiktan grísakamb sem snæddur var með grænmeti og smjörsteiktum Heiðmerkursveppum. Namm, namm.

 

Að vera samkvæm sjálfri sér - eða hvað?

Haldið þið ekki að í gær hafi sjálfur þrjóturinn Eiríkur Jónsson á DV hringt í mig. Málið var að diskurinn með Villiköttunum var að koma út, en fyrir þá sem ekki vita eru á honum lög og textar eftir eldri son minn og sömuleiðis lög eftir Frey Eyjólfsson úr Geirfuglunum. En hvað um það frumburðurinn hafði verið í viðtali við DV og nú var spurt hvort ég vildi vera með í dálki sem kallaðist mamma segir. Ég hef reyndar einu sinni lent í þessum sama dálki á árunum áður með spurningum um sama son, sem var svo sem allt í lagi, en daginn eftir sleit eiturpenninn Svarthöfði orð mín rækilega úr samhengi (og vitnaði meira að segja í mig á forsíðu). Eftir það hef ég ekki keypt DV. Auk þess er EJ ekki í miklu uppáhaldi hjá mér svo ég hafði allt á hornum mínum, fékk þarna útrás fyrir margra ára innibyrgða gremju, en eins og karlgreyið sagði var hitt atvikið fyrir hans tíð á blaðinu og allt annar ritstjóri þá. Honum tókst því að lempa mig og ég svaraði einhverjum spurningum og það síðasta sem hann sagði við mig var: „Ég fer vel með þetta. “ Ég sagði að það væri eins gott og ef ég yrði ekki ánægð skyldi hann eiga mig á fæti og mér væri full alvara með því. Ég keypti DV í gær til að sjá viðtalið - það var í góðu lagi - og nú neyðist ég líklega til að kaupa það aftur í dag til að sjá hvor EJ hefur staðið við orð sín.
Ég held þetta hljóti að kallast að vera ekki samkvæm sjálfri sér. Eða hvað?

þriðjudagur, júlí 26, 2005

 

Að sjá björtu hliðina

Aumingja englabossinn var í gærmorgun fluttur í sjúkrabíl frá Úlfljótsvatni með andþrengsli og gat varla talað. Við rannsókn kom í ljós að þetta var ekki veirusýking en ekkert meira vitað fyrir víst svo hún var send heim með stera og átti að koma aftur í dag ef hún lagaðist ekki. Reyndar var hún orðin miklu betri strax í gærkvöldi og þegar ég talaði við hana áðan virtist allt í lagi, en hún var ansi hreint hás, ekki ólík föður sínum þegar hann var að koma heim úr skátaútilegunum. Líklega hafa þetta verið svona svæsin ofnæmisviðbrögð - hún ku víst vera öll útsteypt í mýbiti sem er auðvitað ekkert betra en móskítóbit. Aðspurð sagði hún að það hefði svo sem verið í lagi að missa af síðasta deginum, hún hefði bara sloppið við að þurfa að ganga frá tjaldbúðunum og taka til. Það er auðvitað ágætt að sjá björtu hliðarnar á tilverunni. Skyldi hún hafa þetta Pollýönnusyndróm frá ömmu sinni?

 

Ódýrt og gott

Ein uppáhaldsfrænka mín er svo mikill hænuhaus að stundum fer hún í Ríkið á föstudegi og kaupir tvo bjóra og liggur svo í því alla helgina!

mánudagur, júlí 25, 2005

 

Endalaus veðurblíða!

Við fórum að heimsækja barnabörnin á Úlfljótsvatn á fimmtudaginn. Vorum smástund að finna Englabossann, en Drekinn sást hvergi fyrr en kallað var til kvöldverðar, hafði verið upptekinn í alheimsþorpinu sem ku vera afbragðsskemmtilegt, allavega ætlaði hann í það aftur daginn eftir. Skátarnir skemmta sér greinilega vel þarna og hafa meira en nóg að gera. Frændsystkinin voru ekkert búin að hittast svo það var ágætt að við gátum komið þeim saman. Drekinn hafði að orði að það væri hreint merkilegt hvað hægt væri að gera margt skemmtilegt úr orku jarðar og Englabossanum fannst geðveikt fjör.
Á föstudaginn komu Danni og Kári og gistu hjá okkur eina nótt áður en haldið var á ættarmótið, höfðu verið á feðgaferð og tjaldað á Hvammstanga nóttina áður en ákváðu að fá að sofa í rúmi næstu nótt, áður en haldið yrði í Fannahlíð. Við hjónin keyptum svo í matinn fyrir ferðina og ég eldaði 9 lítra af gúllassúpu til að koma á óvart með í hádeginu á sunnudaginn. Og auðvitað var helgin svo frábær! Samkoman tókst með ágætum eins og alltaf, frekar fámennt og góðmennt, en samt var það svo að 38 skrifuðu sig í gestabókina. Það er auðvitað ekkert miðað við að í fyrra voru það 60, en núna vantaði líka heilan ættlegg og margir voru erlendis og sumir uppi á fjöllum eins og gengur og gerist. En svo mætti líka fólk sem hefur bara einu sinni komið áður og ætlar að láta það ganga í sínum ættlegg að fólk viti ekki af hverju það sé að missa og mana það til að fjölmenna að ári. Veðrið var heldur ekki af verri endanum svo dásamlegt að stundum varð maður að fara inn til að kæla sig. Svo var auðvitað hlegið og masað og grillað og drukkið (allt samt í mesta hófi) og allir nutu sín í botn. Á sunnudagsmorguninn vaknaði ég kukkan níu og gat ómögulega sofnað aftur, það var svo bjart í tjaldinu. Þegar ég fór að kvarta undan því að geta ekki sofið lengur var mér vinsamlega bent á að ég hefði reyndar sofið á mitt græna í átta tíma og þar með hætti ég nöldrinu. Um morguninn var niðaþoka, það sást ekki í bæina handan við vatnið þegar ég vaknaði og eiginmaðurinn (sem vaknaði klukkan hálfsjö, fór inn í hús, lagaði bæði te og kaffi og fékk sér morgunmat og las síðan Harry Potter í ró og næði) sagði að ekki hefði sést niður að vatni þegar hann fór á stjá. En svo hvarf þokan eins og hendi væri veifað og sólin hélt áfram að grilla okkur á fullu. Það var hreinlega of heitt til að fara í gönguferð eða yfirleitt gera nokkuð annað en að dóla sér í leti. Þegar þeir sem gist höfðu á staðnum höfðu gætt sér á gúllassúpunni minni í hádeginu (hún kláraðist og fékk frábæra dóma) var tekið til í húsinu, vaskað upp og gengið frá. Margar hendur vinna létt verk og um tvöleytið höfðu öll tjöld og tjaldvagnar verið tekin niður og við skelltum í lás á eftir okkur.
Við hjónakornin fórum svo í heimsókn til vinkonu okkar í bústaðinn hennar í Skorradalnum og þar sátum við á „stærsta palli á Íslandi“ og héldum sólbaðinu áfram. Líklega höfum við OD-að af súrefni af því í gærkvöldi þegar heim var komið vorum við dauðþreytt. Ég hálfdottaði fyrir framan sjónvarpið og drattaðist svo inn í rúm fyrir miðnætti og að sjálfsögðu svaf ég til klukkan níu í morgun!
Annað kvöld fer ég svo í fimmtugsafmæli ágætrar vinkonu. Þetta er svo ungt!

P.S. Í kvöld steikti bóndinn handa mér kjúklingaleggi sem voru snæddir með fersku grænmeti og afganginum af kartöflusalatinu eftir ættarmótið.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

 

Öllum getur ofboðið!

Ég tel mig yfirleitt mestu geðprýðismanneskju og læt fátt á mig fá, en ég verð samt að viðurkenna að mér ofbauð eiginlega í dag þegar ég var að koma úr klippingu og lenti á eftir bíl með gömlum (hundgömlum) hjónum sem ók á 30 á Nesveginum. Fyrst fannst mér eiginlega sniðugt hvað karlinn var lengi að taka beygjuna af Hofsvallagötu inn á Nesveginn, en þegar ég neyddist svo til að dóla á eftir honum á innan við 30 og það mikil umferð á móti að ég gat ekki tekið fram úr hætti mér að vera hlátur í hug. Auðvitað var svo komin heilmikil bílaröð á eftir okkur og mér fannst verst að þetta var svo lítill bíll að minn skyggði örugglega alveg á hann og ég var farin að finna hvernig allir hinir bílstjórarnir blótuðu mér í sand og ösku. Ég var því mjög fegin þegar ég gat beygt inn á Tjarnarstíginn og komist heim til mín. En ég tók gleði mina þegar heim var komið og ég gat horft á The Antic Road Show á BBC. Já, ég viðurkenni það, ég horfði á sjónvarpið í góða veðrinu í dag, bæði The Antic Road Show og Bargain Hunt. Annars var ég líka þrældugleg að vinna og svo fór ég eins og áður segir til Jógvans í klippingu og strípur og er núna létt flippuð til hársins. Nema hvað? Ég var nú einu sinni kölluð amma pönk. Hvernig amma ætli ég sé núna? Fæ kannski svar við því á morgun þegar við förum að heimsækja tvö barnabarnanna á Landsmót skáta á Úlfljótsvatni. Læt þetta gott heita í bili.

P. S. Sauð lax í kvöldmatinn og hann bragðaðist dásamlega með nýjum kartöflum, fersku salati og smjöri.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

 

Þvílík himnablíða!!!

Loksins, loksins kom góða veðrið og það er spáð svona blíðu fram yfir helgi. Ég var nú eiginlega alveg viss um að það yrði frábært veður á ættarmótinu um helgina, ég er farin að hlakka svooo til að tjalda og auðvitað líka til að hitta allt skemmtilega fólkið sem væntanlega mætir. Reyndar er Imma frænka alvarlega veik svo það mætir trúlega enginn úr þeim ættlegg, enda aðeins hennar fólk á landinu - við verðum bara að vona það besta fyrir Immu hönd og senda henni góðar og hlýjar hugsanir. Hún sem aldrei hefur viljað missa af ættarmótinu, meira að segja þegar það bar upp á fertugsamælið hennar mætti hún og hélt upp á afmælið með okkur. Við hjónakornin munum mæta fyrst upp eftir og opna húsið og taka á móti fólkinu - allt í lagi með það. Ég talaði við húsvörðinn áðan að athuga hvort við ættum húsið ekki pottþétt bókað og hún sagðist nú halda það, þetta væri „heilög helgi“ og það kæmi ekki til greina að neinir aðrir fengju það á þessum tíma. Gott að vera orðnir fastir kúnnar, enda er þetta fimmta árið sem við erum í Fannahlíð. Ég get ekki sagt að mér þyki það leiðinlegt, verð eins og barn þegar ég kemst á heimaslóðirnar. Það besta við þetta er að það þarf ekkert að skipuleggja neitt, annað hvort mætir fólk eða mætir ekki og þeir sem mæta koma með góða skapið og annað þarf ekki. Ligga, ligga lá! Á morgun fer ég í klippingu til Jogvans - hann er hreinn snillingur í að gera kerlur eins og mig elegant og fínar eins og kvikmyndastjörnur!

laugardagur, júlí 16, 2005

 

Augnablikið

Livet er ikke det værste man har - om lidt er kaffen klar.
- Snillingurinn Svante -

 

Undarleg þessi þjóðarsál

Ég var að ráfa um vefinn og sjá hvað bloggarar eru að hugleiða þessa dagana og þá datt mér í hug að þetta er ekki ólíkt Þjóðarsálinni - hræðilegum útvarpsþætti sem eitt sinn var á dagskrá RUV og fólk gat hringt í til að segja skoðanir sínar á öllu sem hugsast gat. Ég varð meira að segja einu sinni svo fræg að sitja þar fyrir svörum! Mér þykir nú lúmskt gaman að svona nöldri en það er hreint ótrúlegt hvað fólk getur verið að kvarta og skammast út af öllu mögulegu sem það getur svo ekkert gert við. Heyrði frábæran pistil um slíkt hjá syni mínum í gær á Talstöðinni. Kannski líður fólki samt betur að koma óánægju sinni á framfæri - það er að minnsta kosti ekki að básúna hana í útvarpið, en er ekki svolítið undarlegt að skrifa svona sjaldan um ánægjulega hluti? Ég hitti til dæmis bráðskemmtilega konu úti í Nóatúni í morgun. Þannig var að við hjónakornin ætluðum að kaupa nýjar, íslenskar kartöflur, en þær sáust því miður hvergi. Við eftirgrennslan kom í ljós að það var svo nýbúið að opna verslunina að verið var að koma grænmetinu fram í búð svo við ákváðum að geyma kartöflurnar þar til við værum búin að ná í allt hitt. Þegar við svo komum á kartöflustaðinn var þar fyrir ansi hreint röskleg ung stúlka við stórt bretti af alls kyns káli og öðru grænmeti auk kartaflanna og hún vippaði þungum pokum til og frá eins og ekkert væri. Þarna álengdar stóð eldri kona (líklega svona um áttrætt) og henni varð að orði að þetta væri nú ekkert kvenmannsverk. Sú yngri hélt það nú, þetta væri bara frábær líkamsrækt og við þrjár fórum eitthvað að spjalla á meðan unga konan tók utan af kartöflupoka fyrir okkur. Sú gamla talaði svona svolítið með dönskum hreim og dönskum slettum, áreiðanlega dönsk en búin að búa hér í ótalmörg ár - hefur trúlega gifst íslenskum námsmanni fyrir miðbik síðustu aldar. Minn ektamaki var líka stimamjúkur við hana, rétti henni plastpoka til að tína kartöflurnar í og annan til að hafa á höndinni og hún þakkaði okkur svona líka vel fyrir. Sem sagt þessi endir á ósköp venjulegri verslunarferð hlýjaði mér um hjartaræturnar. Gaman að til skuli vera svona elskulegt og jákvætt fólk.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

 

Ég er svo yfir mig hissa

Ég var rosalega glöð í gærkvöldi þegar ég sá Sigga storm (fyrrverandi nágranna okkar úr Hafnarfirðinum) sýna að það ætti að vera sólskin og þvílíkt himnaveður hérna í dag og var staðráðin í að taka mér frí fá tölvunni eina dagsstund. En ég varð svo yfir mig hissa þegar blesaður dagurinn rann upp og engin sást sólin. Hún var reyndar einhvers staðar þarna uppi, en mistrið var svo mikið að geislarnir náðu ekki vel í gegn. Mér fannst ekki nógu aðlaðandi að sitja úti á svölum þótt hitamælirinn sýndi yfir 20 stig (í sólskini fer hann oftast alla leið upp) og sleppti því sólbaðinu en sat inni og kláraði bráðskemmtilegan reyfara, Invitation to a Funeral, sem gerist í London árið 1676 og er eftir höfund sem kallar sig Molly Brown (ég trúi ekki að það sé rétt nafn). Í honum er allur subbuskapurinn sem gengur og gerist í nútímareyfurum auk þess sóðaskapar sem auðvitað var viðvarandi alls staðar á þessum tíma. Það er ekki nóg með að menn séu myrtir á hinn hroðalegasta hátt, þeir eru skornir á háls á kamrinum, sem kallast því semmtilega nafni „house of office“. En sem sagt, þetta er með betri reyfurum sem ég hef lesið að undanförnu - ekki að ég hafi lesið svo mikið upp á síðkastið.
Eftir hádegið fórum við hjónin í Ellingsen þar sem ég festi kaup á þessum líka frábæru gönguskóm og svo tókum við röska göngu í fjörunni við Gróttu. Við ætluðum nefnilega í kraftgönguna í gær en komumst þá að því að hún er líklega farin í sumarfrí. Annars hélt ég að fríið byrjaði ekki fyrr en í næstu viku þar sem Hornstrandaferðin er um aðra helgi. Hvað um það, við létum það ekki á okkur fá og ákváðum að taka hressandi kraftgöngu um Öskjuhlíðina tvö ein og það var svo sem allt í lagi þar til ég missti fótanna á sléttum göngustíg, bar fyrir mig hendurnar og hruflaði mig og stórmeiddi á annarri (finn enn þá til í þumalfingrinum) og hruflaði mig sömuleiðis á öðru hnénu. Ég skil þetta ekki, það er stundum eins og fótunum sé hreinlega kippt undan mér. Og ekki var Þorgeirsboli gamli þarna að verki, hef hvorki heyrt eða séð nokkurn í ættinni síðan við fórum til Inga á sunnudaginn. Auk þess held ég að boli sé ekki svona illgjarn, hann er frekar bara að gera vart við sig á undan ákveðnu fólki.
Við höfum ekki enn komist í ferðalag og sumarið hálfnað. Mótið í Fannahlíð er um aðra helgi og þá verðum við í tjaldi en ekki fer maður mikið í tjaldferðir eftir miðjan ágúst, er það?

mánudagur, júlí 11, 2005

 

Það rignir

Það rignir en ég held að það sé smáútlit fyrir að veðrið skáni þegar líður á vikuna. Sumarið er að verða hálfnað og við sitjum enn hér heima og höfum ekkert farið. Skruppum reyndar í Skálholt í gær (staðurinn er alltaf jafn magnaður) og komum við á Þingvöllum hjá Inga að ræða um val á myndum í Rauðhyltingabók. Hann var sammála mér um valið á þeim. Annað er svo sem ekki að frétta enda átti þetta ekki að verða nein dagbók.
Í gær hélt ég að ég væri búin að uppgötva hvernig hægt væri að koma á friði í Austurlöndum og stöðva hryðjuverk á Vesturlöndum. Ef mörg hundruð þúsund Vesturlandabúar (eða milljónir) flykktust til Írak, Afganistan og Palestínu og segðu: Komið bara, drepið okkur ef þið viljið. Og ef mörg hundruð þúsund Austurlandabúa (eða milljónir) kæmu til Vesturlanda og segðu það sama hvað myndi þá gerast? Svo var mér bent á að þetta yrði mjög erfitt í framkvæmd, bæði að koma öllu þessu fólki á milli landa, fá fyrir það tilskilin leyfi og áritanir, og sömuleiðis að fá fólk sem sjálfboðaliða í svona nokkuð. Líklega var þetta heldur mikil bjartsýni og mér er víst um megn að koma á friði í heiminum - en það mátti reyna! Mér heyrast íslensku stríðsherrarnir því miður vera býsna vígreifir. When will they ever learn?
Fleira er það ekki að sinni. Friður sé með öllum jarðarbörnum.

föstudagur, júlí 08, 2005

 

Margur hefur verið barinn...

Margur hefur verið barinn fyrir það eitt að lenda í slæmum félagsskap og þannig fór fyrir Bretum núna. Það er auðvitað skelfilegt þegar svona nokkuð gerist og ég er ekki að mæla því bót, en er þetta ekki einfaldlega heimatilbúinn vandi? Mér er líka spurn hversu margir óbreyttir borgarar deyja og limlestast daglega í tilgangslausu stríði í Írak, skyldi mannfallið þar ekki vera orðið talsvert mikið? Fyrir nú utan öll börnin sem dóu af því þau fengu ekki lyf vegna viðskiptabannsins. Fengu ekki lyf vegna þess að hugsanlega væri hægt að nota þau í efnavopn. Og Madeline Albright dirfðist að segja að jafnvel þótt 50.000 börn myndu deyja á dag væri viðskiptabannið nauðsynlegt! Ég hafði talið hana nokkuð skynsama manneskju þar til ég heyrði hana segja þetta og eftir það gat ég ekki litið hana réttu auga og yfirleitt slökkti ég á sjónvarpinu eða hætti að horfa þegar hún birtist á skjánum. En sem betur fer heyrist lítið til hennar núna. Finnst ykkur svo undarlegt að íbúar þessa heimshluta séu fullir haturs út í Vesturlandabúa? Ekki held ég að ég myndi elska þá sem murkuðu lífið úr fjölskyldu minni. Og svo finnst mér barnalegt að halda að hægt sé að sigra óvin sem ekki óttast dauðann.
Annars held ég að nú sjáist best munurinn á þjóðarsál Breta og Bandaríkjamanna. Ég horfði öðru hvoru á Sky News og BBC í gær og fannst vandað til fréttaflutnings - engar hrollvekjandi myndir af limlestu fólki heldur fyrst og fremst sagt frá því hvernig björgunarstörf gengu. Og svo sá ég hvar yfirmenn lögreglu, björgunarliðs, lesta- og strætisvagna og fleiri sátu fyrir svörum og það bar ekki á neinum æsingi, hvorki hjá þeim né fjölmiðlafólkinu sem spurði þá. Eitthvað annað en sjónvarp frá Bandaríkjunum eftir 11. september.
Mér skilst að Dönum og Ítölum hafi líka verið hótað svo nú er spurningin hvenær röðin kemur að okkur. Ætli það komi ekki út á eitt hvort það eru „alvörudátar“ eða „áhugahermenn“ sem við sendum á svæðið.

laugardagur, júlí 02, 2005

 

Leti og aftur leti

Ég er alveg ótrúlega löt þessa dagana, kem eiginlega engu í verk. Svo er ég að þýða mynd sem er vægast sagt stórundarleg og með texta á við tvær venjulegar myndir þótt hún sé bara í venjulegri lengd. En vonandi klára ég hana á mánudaginn, mig langar að taka mér alveg frí á morgun. Hvað sagði ég ekki um letina? Annars hefur verið virkilega gaman undanfarna daga svo letin á sér kannski eðlilega skýringu. Danni og Gulla eru hérna með strákana svo það voru fjörugar samræður (og rökræður) við matarborðið í gærkvöldi. Svo fóru þeir feðgar ásamt Degi á War of the Worlds klukkan ellefu í gærkvöldi en við Gulla og Kári vorum hér heima að spjalla þar til við vorum farnar að geispa nokkuð mikið og komum okkur í svefn. Í dag er ég svo búin að fara tvisvar til Davíðs að gefa Kisu og kettlingunum hennar og þarf að fara einu sinni á morgun því hann fór með sín börn í útilegu og kemur heim annað kvöld. Þeir hittast því ekki í þetta sinn bræðurnir.
Annars er ég í hálfgerðum vanda með tölvupóstinn minn, reyndar algerum. Við hjónin erum nefnilega að flytja okkur yfir til Hive og ég er að fá ADSL tengingu. Það tekur víst fimm virka daga frá því að við sóttum um og þar til við fáum tenginguna og ég var aðeins of fljót á mér að segja upp hjá Og Vodafon og biðja um að pósturinn minn yrði áframsendur til Hive svo nú fæ ég engan póst og ég sé í anda mörg hundruð tölvubréf safnast upp í hólfinu mínu hjá Hive en mér er ekki nokkur leið að finna á síðunni hjá þeim hvernig ég get skoðað hann. Samt er ég bæði komin með netfang þar og lykilorð. Vona bara að við fáum tenginguna ekki seinna en á miðvikudaginn en þá verða komnir fimm virkir dagar.
Ég þarf að fara að læra betur á blogger svo ég geti sett inn myndir með pistlunum mínum - verð hreinlega að finna mér tíma í það. En vonandi komumst við hjónakornin fljótlega í smáferðalag. Mig er farið að klæja í lófana eftir að tjalda og anda að mér svolitlu sveitalofti - þarf vonandi ekki að bíða eftir ættargleðinni í Fannahlíð 23. júlí, mér finnst ansi langt þangað til.
Ég hafði líka hugsað mér að nöldra eitthvað en nú man ég alls ekki út af hverju svo ég held að ég bara sleppi því í þetta sinn. Það hefur varla verið merkilegt fyrst ég man það ekki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?